Skjákvörðun

skjakvordun

Ég fékk þessa fyrirspurn frá viðskiptavini um daginn:

Ég er búinn að kalibrera skjáinn minn og mér finnst hann dálítið rauður, á hann að vera það eða er þetta eitthvað sem mér finnst sjálfum.
Er hægt að kontrolera þetta við einhver litaspjöld?
Hins vegar eru myndirnar sem ég hef tekið allt í einu mjög fínar, flottir litir, þar sem áður var hálfgert grámystur og ekkert í þær varið.
Þær myndir sem ég hef verið að leika mér að breyta eru nú með ýktum litum, allt of mikið breyttar eins og ég hafi gersamlega tapað mér á einhverju Photoshop-fylleríi.
Á þetta að vera svona?
K
Sigurður Júlíusson

Það er mjög eðlilegt að skjárinn virki svolítið rauður eða “heitur” ef við erum að útbúa skjáprófíl í fyrsta skipti. Sérstaklega ef um CRT (hefðbundna túpuskjái) er að ræða þar sem margir þeirra koma stilltir á 9300K gráður ljóshita frá framleiðandanum, sem er í raun mjög kalt eða bláleitt ljós. Algengasti staðallinn fyrir skjákvörðun á CRT er Gamma 2.2 og 6500K. Því lægri sem Kelvin gráðurnar eru því heitari virkar skjárinn. Til að skjáprófíll fyrir CRT skjá sé góður er mjög mikilvægt að stilla sjálfan skjáinn á réttan ljóshita. Það er hins vegar misjafnt hversu mikið er hægt að stilla þá. Sumir hafa enga möguleika (og eru þá yfirleitt fastir á 9300K), aðrir hafa þrjú föst gildi – 5000K, 6500K og 9300K og enn aðrir bjóða upp á stillingu fyrir hverja RGB byssu fyrir sig (sem er yfirleitt nákvæmasta leiðin). Ef við stillum þetta ekki nokkuð nálægt takmarkinu þarf ICC prófíllinn að gera óþarflega stóra leiðréttingu á ljóshitanum, sem kemur niður á nákvæmni hans.

Við höfum engin litaspjöld sem við notum til að kanna ljóshitann. Til að kanna gæði skjásins og skjáprófílsins er gott að opna myndir eins og Pixl testmyndina og skoða hvort gráskalinn sé jafn og hversu langt niður í svart við sjáum aðgreiningu tóna. Þessi sama mynd nýtist einnig vel til að kanna gæði prentara og prentprófíla. Ef þú vilt sjá stærð skjáprófílsins, eða hversu mettaða liti skjárinn þinn getur sýnt er ColorThink hugbúnaðurinn snilldarlausn.

Það er eðlilegt að það sé meiri “djús” í skjánum eftir skjákvörðun, sérstaklega ef maður hefur verið að vinna í stórum litrýmdum eins og Adobe RGB eða ProPhoto RGB. En mjög stórar breytingar á myndum fyrir og eftir skjákvörðun geta líka bent til þess að uppsetning á Color Settings í Photoshop sé ekki í lagi. Forðast skal að nota skjáprófílinn sem vinnulitrýmd. Í almennri vinnu fyrir prentverk er ágætt að nota Europe Prepress sem kemur uppsett með Photoshop. Ef við vinnum aðallega efni fyrir skjá eða vefinn er gott að nota Europe Web/Internet.

Colorsettings

2 thoughts

  1. Þakka frábært svar. Ég er strax sáttari við skjáinn minn, gamla túbu sem ég keypti á tíkall, og sé að ég þarf að fara að líta á alvöru útbúnað.
    Var að vafra um heimasíðuna þína og rakst þar á að boðið er upp á Photoshop námskeið, er það ef til vill eitthvað fyrir amatöra eða sniðið meira fyrir atvinnumenn?

  2. Námskeiðin sem ég hef verið að kenna henta vel þeim sem eiga D-SLR myndavél en hafa lítið kynnt sér kosti þess að skjóta á RAW format. Það getur átt við amatöra og einnig fagmenn. Á námskeiðinu er farið vel ofan í hvað RAW skrá er í raun og veru og hvernig við fullnýtum okkur kosti þess í stað JPEG. Einnig er farið í gegnum litstýringuna í tölvum, hvert hlutverk ICC prófílana er og skráningu mynda og utanumhald. En það er sem sagt RAW vinnuflæðið sem er aðalatriðið, enda skiptir það miklu máli í dag að eyða ekki tímanum í óþarfa. Fjöldi myndanna er orðinn slíkur að ef við ætlum að ná árangri verðum við að vinna skipulega. Annars hefur maður hreinlega ekki orku í að liggja yfir bestu myndunum!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *