Kominn tími til að vakna?

draumalandidÉg var að klára bókina Draumalandið eftir æskuvin minn Andra Snæ Magnason. Ekkert sem ég hef lesið hefur hrært jafn duglega upp í kollinum á mér. Hún bókstaflega rífur mann upp á rassgatinu og er í senn magnaður innblástur.

Sumir halda kannski að bókin sé bara ein stór náttúrverndargrein eða eingöngu skrifuð gegn virkjanaframkvæmdum og stóriðju. En hún er það svo sannarlega ekki. Þetta er bók sem skýrir svo margt út varðandi samtímann, land og þjóð. Andri hittir naglann svo gjörsamlega á höfuðið hvað eftir annað að maður getur varla látið bókina frá sér. Hann nær að kryfja þjóðina lifandi. Hann sýnir lesendanum fram á af hverju við erum stödd þar sem við eru í dag og það sem er mikilvægara – hvernig við getum breytt þeirri stöðu án þess að fórna landinu okkar og sjálfstæði.

Við erum búin að sofa of lengi. Þjóðin verður að vakna og taka ábyrgð á sjálfri sér. Við getum ekki bara látið eins og virkjanaframkvæmdir og álver komi okkur ekki við – þó að við höfum kannski ekki persónulegan áhuga á þessum málum. Þau varða okkar framtíð hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Við látum segja okkur að virkjanir og álver séu einu möguleikarnir til að viðhalda hagvexti hér á landi. Það eru alltaf settir fram afarkostir. í hnotskurn hljóma þeir þannig að annað hvort höldum við áfram að að vinna eftir þeirri stefnu að virkja, menga umhverfið og eyðileggja náttúruna eða við verðum bláfátæk og atvinnulaus á örfáum árum.

Höfum við virkilega ekki meiri trú á okkur en það?

2 thoughts

  1. Er ekki vandamálið það að við erum of upptekin við að hugsa um eigið rassgat til að nenna að spá í hvað er verið að troða oní okkur?

  2. Jú, auðvitað er mikið til í því. Þessi þjóð er líka mjög upptekin af því hvað öðrum finnst, þ.e. öðrum þjóðum. Þess vegna er kaldhæðnislegt að við skulum halda því fram að þetta land sé svo “pure” og loftið svo “fresh” á meðan það sem stjórnvöld eru að bjóða til sölu til aðila eins og Alcoa gengur jú út á það að við verðum að hækka heimildir til mengunar og þar fram eftir götunum. Áttar fólk sig til dæmis á því að núverandi heimildir til losunar á brennisteinsdíoxíði á höfuðborgarsvæðinu nálgast helming heildarlosunar frá Noregi eða Danmörku?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *