Ljósmyndun í afmæli ofl

afmaeli
Arndís dóttir mín átti afmæli á Páskadag sem er auðvitað afleitt þegar allar vinkonurnar eru meira og minna í páskafríum með fjölskyldum sínum og komast þar af leiðandi ekki í afmælið! Því var haldið upp á afmælið í dag. Rosa stuð eins og búast má við í 7 ára afmæli. Í dag ákvað ég að að taka eitt portrett af hverri stúlku í stað þess að puðra endalaust á allt og ekkert eins og svo oft vill verða með svona afmælismyndir. Stelpurnar hér að ofan eru: Arndís (afmælisbarnið), Gunnur, Ísabella, Rakel Tara, Júlía, Mekkín, Íris, Helga Bryndís og Bjargey (stóra systir). Ég tók þessar myndir á svona tveimur mínútum, ef það náði því. Einfalt og þægilegt, stofuglugginn er ljósgjafinn og ég skaut þetta á ljósopi 1.8 og 1/125s.

kokurÞað er um að gera að pæla aðeins í því hvernig maður getur tekið svona viðburð og gert eitthvað pínulítið öðruvísi en venjulega. Umhverfið er stútfullt af flottum myndum – málið er bara að opna augun.

Það er t.d. lærdómsríkt að sjá myndir frá Reykjavík sem útlendingar hafa tekið. Allt önnur nálgun og mjög oft bráðfallegar myndir af einhverju sem manni hefði aldrei dottið í hug að mynda. Það sannast að glöggt er gests augað.

Gott dæmi um þetta voru myndir sem ég litgreindi fyrir Ami Sioux síðasta sumar. Hún var að gera mjög sniðuga kortabók um Reykjavík þar sem hún valdi staði sem heilluðu hana, tók myndir og teiknaði svo afstöðukort. Þetta var allt tekið á frekar basic búnað, en inn á milli algerar perlur! Ég vann þetta pro bono. Maður á að vinna frítt endrum og eins.

Þetta var reyndar ekki í fyrsta skipti sem leiðir okkar Ami lágu saman. Á diktuárum mínum gekk ég frá sýningu fyrir hana sem var í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Minnir að það hafi verið árið 2003. En þegar hún hafði samband út af kortabókinni var það í gegnum Börk Arnarson hjá Íslensku Auglýsingastofunni. Hann sá um umbrotið fyrir hana.

Talandi um Ljósmyndasafn Reykjavíkur þá er þar að finna myndavef með mikið af gömlum myndum. Myndasafnið er byggt á FotoWeb eins og svo mörg myndasöfn hér á landi. Annað dæmi um FotoWeb myndasafn er ljósmyndasafnið hans Pabba (Mats) sem má skoða hér. Gamli hefur sérhæft sig mest í loftmyndum af þéttbýli sem og sveitum, þannig ef þú átt ættir þínar að rekja út á land er um að gera að athuga hvort ekki sé til mynd af bænum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *