Borgartún, bakkastaðir og augnablik

borgartun

Borgartúnið hefur breyst mikið á undanförnum árum. Mörg hús hafa verið rifin og nútímaleg skrifstofuhús risið í stað þeirra. Guðni Pálsson arkitekt á heiðurinn af Nýherjahúsinu, húsi atvinnulífsins og KPMG húsinu sem standa öll í röð í Borgartúninu. Það er einn stór galli á Borgartúninu. Bílastæðin eru svo þétt í kringum húsin. Í raun er svæðið ekkert nema bílahaf alla virka daga. Þegar ég sá planið tómt við hús atvinnulífsins í gær ákvað ég að taka nokkrar myndir, þrátt fyrir að hafi myndað húsið áður fyrir Guðna. Hann fær þessar bara í bónus.

Þetta er gott dæmi um hvað Arktitektúrljósmyndun krefst oft mikils tíma ef maður vill ná sem bestum myndum. Það þarf ekki bara að taka tillit til birtunnar og/eða árstímans heldur er jú umhverfið stór þáttur. Ég veit ekki hversu oft ég hef farið af stað að mynda byggingar til að komast að því að það er eitthvað drasl fyrir utan húsið sem eyðileggur tökuna fyrir mér. Það getur verið agalega svekkjandi, sérstaklega ef maður er búinn að hafa fyrir því að rífa sig upp eldsnemma, að ná galdraljósinu sem er rétt fyrir sólarupprás á björtum dögum.

bakkastadir

Þegar ég var búinn að ná myndunum sem ég var á höttunum eftir renndi ég upp í Grafarvog, nánar tiltekið á Bakkastaði 113 þar sem vinnustofan hennar Brynhildar Þorgeirsdóttur er. Hún hefur verið með opna vinnustofu undanfarnar helgar og er allir eru velkomnir að skoða verkin og auðvitað kaupa ef áhugi er fyrir hendi. Ég kynntist Brynhildi þegar ég ljósmyndaði verk hennar á Listasafni Reykjavíkur fyrir sýninguna Myndheim. Svo sá ég um skönnun og myndvinnslu fyrir stórglæsilega bók hennar sem kom út fyrir skömmu. Mögnuð kona hún Brynhildur. Hún er ein af þessum manneskjum sem heilla mann strax upp úr skónum. Mikil orka í kringum hana sem er bráðsmitandi.

Ég komst ennfremur að því að Brynhildur er ein af aðstandendum Augnabliks en þau standa fyrir ferðum um Náttúruperlurnar fyrir austan, sem fara undir vatn sökum Kárahnjúkavirkjunnar. Ég ætla mér að fara í svona ferð í sumar og ljósmynda svæðið í leiðinni. Hér má finna myndagallerý frá þessum ferðum og hér eru frábærar myndir Jóhanns Ísbergs. Eins og sjá má er langt frá því að svæðið sé e-h auðn og eintómir sandar. Maður fyllist sorg að hugsa til þess að það eigi að eyða þessu stórkostlega svæði í nafni virkjana og álbræðslu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *