Helgin í myndum

Frændur
Jæja þá er góð þriggja daga helgi á enda. Það var nóg að gera og eins og vanalega var myndavélin aldrei langt undan. Hér að ofan má sjá þá frændurna Ara Carl (son minn) og Eliot. Þeir eru magnaðir drengir, miklir orkuboltar eins og flestir strákar á þeirra aldri. Ari Carl setti upp “rokksvipinn” fyrir mig, enda ekki annað hægt með þessi sólgleraugu jafnvel þó að maður sé í náttfötunum. Myndin af Eliot tók ég í Iðu, en við fengum okkur að snæða þar eftir sundferð á sunnudaginn. Við fórum í gömlu góðu Laugardalslaugina í þetta sinn. Vanalega er nú Árbæjarlaugin fyrir valinu, en stelpurnar vildu endilega fá að prófa nýja rennibraut. Hún sló í gegn hjá öllum og við fengum líka svona rosa fínt veður í Laugardalnum. Gott ef maður var ekki pínu sólbrenndur um kvöldið (þarf reyndar ekki mikið til hjá mér).

Trampolin

Eftir sundið fórum við í smá leiðangur ásamt systur minni að kaupa trampolín. Það fékkst í Húsasmiðjunni og við vorum ekki nema svona hálftíma að koma því upp ásamt öryggisneti! Ég var búinn að sjá fyrir mér að þetta myndi verða verkefni fyrir alla helgina, en kaninn kann sko að búa til “tools-free” trampolín sem tekur enga stund að setja upp. Krakkarnir svo gott sem hoppuðu úr sér nýrun svo það þurfti að slaka á í hoppinu í dag.

Rauðavatn

Því fórum við í gönguferð í dag, ásamt tengdamömmu og hundinum Loga. Þessi mynd er tekin rétt fyrir ofan Rauðavatn og horft í átt til Bláfjalla. Við fórum um svæði sem ég hafði ekki gengið um áður, en þetta er ágætur hringur sem er vinsæll hjá fólki sem er með hunda því það er hægt að leyfa þeim að vera lausum.
Krakkarnir

Ég tók þessa mynd af krökkunum á leiðinni. Skýin koma svona sterkt úr þar sem ég notaði Polarizing filter.

3 thoughts

  1. Góðar myndir, ekki við öðru að búast. Ég skil ekki hvernig þú ferð að þessu. Myndin af Bjargey á hoppulíninu frábær.

  2. Frábært að rekast á bloggið þitt, alltaf gaman af ljósmyndarabloggum og þitt er sko engin undantekning. Ég mun fylgjast með 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *