Hjólreiðar og fleira

Hjolatur

Mikið assskoti er ég ánægður með mig. Dagur tvö í nýju og betra lífi var í gær og ég fór í minn annan hjólatúr á jafnmörgum dögum. Ákvað að fara upp í Heiðmörk, enda ekki svo ýkja langt að hjóla úr Árbænum. Magnað hvað veðrið svona snemma á morgnanna er yfirleitt gott, sjaldan nokkur vindur. Sólin var að brjóta sér leið í gegnum skýin þegar ég fór af stað, en það voru ennþá svolitlir skúrir, þannig að þessi fallegi regnbogi myndaðist í morgunbirtunni.

Regnbogi

Það eru þó nokkur hús þarna á þessu svæði sem þessi mynd er tekin. Það hlýtur að vera magnað að búa þarna uppfrá. Fuglasöngurinn var með ólíkindum og indæll ilmurinn af náttúru sem er að vakna til lífsins. Þegar ég hélt áfram upp eftir kom svo tignarlegt álftapar fljúgandi yfir mig, en þau flugu svo lágt að þau voru næstum samsíða mér um stund.

Ég fór hins vegar ekki mikið um sjálfa göngustígana upp í Heiðmörk vegna þess að þeir eru svo illa farnir eftir hesta. Það eru mjög greinileg skilti um allt sem banna reiðmennsku um stígana, en það virðist vera mikið um blinda knapa í Fáki. Þetta er hvimleitt því stígarnir eru orðnir svo ójafnir að maður hristir úr sér nýrun við að hjóla þá. Einnig get ég ímyndað mér að göngufólk sé þreytt á því að misstíga sig í ójöfnunum. Merkilegt hvað við Íslendingar höldum alltaf að reglur gildi um alla aðra en okkur sjálf?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *