Fagstefna ljósmyndarafélagsins

fagstefnaÉg fór á fagstefnu ljósmyndarafélagsins í dag sem var haldin í tilefni 80 ára afmælis félagsins. Fagstefnan ber heitið “Augnablik til framtíðar” og í kynningu er talað um stórviðburð á Íslandi fyrir fagljósmyndara og aðila í tengdum greinum. Já það er óhætt að segja að það er stórviðburður þegar þessi stétt nær að koma saman yfir höfuð. Ljósmyndarafélagið hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár og margir yfirgefið félagið. Eitthvað virðist þó vera að rofa til og því ber að fagna framtakinu. Það voru um 60 manns samankomnir í dag í frekar þröngum og óspennandi kjallarasal á Grand Hótel Reykjavík.

Fyrsti fyrirlesarinn var Pia Sönströd sem er þriðja kynslóð portrett ljósmyndara frá Noregi. Sæt stelpa og hæfileikarík en nokkuð illa undirbúin og sýndi svona helmingi fleiri myndir en þörf var á. Hún var klárlega sterkust í brúðarmyndunum sem voru margar mjög fínar. Það sem stóð upp úr voru albúmin sem hún gerir en þau voru sérlega glæsileg. Allt prentað á Epson prenturum, (7600 og 4000) laminerað og svo útbúnar flottar, þykkar bækur sem voru virkilega vandaðar og eigulegar. Pia hefur líkast til ekki haldið marga fyrirlestra og var svolítið stressuð og magn myndanna gaf til kynna að hún héldi að hún hefði ekki frá nógu að segja og yrði fljót að klára efnið. En svo var alls ekki og í raun hefði að ósekju mátt stytta hennar slideshow töluvert. Hún hefði líka komið út sem enn sterkari ljósmyndari fyrir vikið.

Strax á eftir Piu fengum við að sjá Hasseblad slideshow úr þremur samstilltum ofurskjávörpum. Rosaflott eins og við má búast þegar Hasselblad er annars vegar. Bladdara-svíarnir klikka ekki frekar en Faxi úr vítunum.

Næsti fyrirlesari var nafni minn Christopher Morris. Nú erum við að tala saman. Mjög hnitmiðað og vel editeraðar myndir, maður með mikla reynslu hér á ferð, það fór ekki á milli mála. Hann sýndi m.a. frábærar myndir frá Norður Kóreu, stríðsmyndir frá Tjetníu og Írak, myndir frá Hvíta húsinu og auðvitað af forsetanum ofurheimska George Bush. Morris hefur haft það að atvinnu undanfarin ár að skrásetja lífið í Hvíta húsinu fyrir Time Life. Hann sagðist vinna í mánuð í senn og er svo í fríi þann næsta. Það voru margar mjög góðar myndir þarna. Rúsinan í pylsuendanum var svo að fá að skyggnast í bókina My America sem er eins konar aukaafurð þessarar vinnu hans í Hvíta húsinu. Snilldarmyndir af umgjörð forsetaembættisins og lífið út frá Republicananum á tímum mikillar þjóðernishyggju í kjölfar 9/11. Ég var mjög sáttur við Christopher Morris og mér fannst sérlega skemmtilegt að hlusta á ljósmyndara sem er ekki commercial og alltaf að pæla allt út frá djobbinu og peningunum.

Aftur fengum við að sjá Hasseblad slideshow, nú frá Kína. Flottar landslagsmyndir í bland við mjög furðulega, nánast þýska 80’s stemningu að mér fannst. Landslagið stóð upp úr og þetta var square format út í gegn, sem hefur e-h sérstakan töframátt. Mig langaði að fara og sækja 503 húsið mitt og 80mm planarinn barasta!

Þriðji og síðasti fyrirlesarinn kom mér skemmtilega á óvart. Hún heitir Michele Clement og er auglýsingaljósmyndari frá Bandaríkjunum. Ég var búinn að skoða heimasíðuna hennar og fannst hún ekkert brjálæðislega spes. En maður lifandi hvað hún sýndi okkur margar flottar myndir. Hún er algerlega analog – gerir meira að segja Dagurretypes sjálf! Hún notar hvaða filmuformat sem er, en ekki síst 4×5″ og alls kyns Polariod filmur og prósessa til að ná fram einstökum myndum sínum. Hún var assistant hjá Ansel Adams for crying out loud! Það var synd að á þessu stigi málsins hafði dagskráin teygst all verulega og því fundargestir orðnir rasssárir með eindæmum. Það gengur varla að raða dagskrá svona þétt eins og í dag og gera ekki ráð fyrir pásum á svona 40 mínútna fresti. Hér voru því margir farnir að ókyrrast og það endaði með því að formaður félgsins varð að biðja hana um að flýta sér. Mér fannst það svolítið glatað og mér fannst hún líka móðgast nokkuð við þetta. Hún var að segja okkur sögur af næstum hverri mynd – og þetta er einmitt það sem maður kemur til að heyra og sjá. Skítt með græjurnar og það drasl allt saman. Það er hvort eð er allt á netinu fyrir hvern sem hefur áhuga. Var frekar fúll yfir þessu því nú straujaði hún í gegnum restina af showinu á þreföldum hraða.

Þegar Michele var búinn var boðið upp á afmæliskaffi – marsipan/rjómakaka og kaffibolli sem ég sleppti reyndar, enda ekki beint annálaður fyrir svona rjómatertuát. Þarna var klukkan farin að ganga sex og dagskrá átti að vera lokið fyrir löngu. Enn átti þó eftir að sýna Aperture frá Apple og svo hlíða á tvo markaðstengda fyrirlestra frá Nýherja/Canon. Planið var líka að á milli kl. 16-18 átti að kynna þráðlausar lausnir fyrir studio frá Canon sem Beco og Nýherji önnuðust með hjálp frá breska ljósmyndaranum Nick Wilcox-Brown. Á þessum tímapunkti varð ég að fara enda búinn að lofa mér annað. Það verður að hrósa Beco og Nýherja fyrir óvenjuflott setup þarna. Alvöru studio með módeli og svona. En ég gat því miður ekki séð kynninguna á Aperture hjá SSJ né þessar vörukynningar að neinu ráði.

Á morgun er svo opið fyrir alla að mæta. No 1 – Ólafur Ragnar Grímsson ætlar meira að segja að taka við bókinni nýju (djöfull hlýtur karlinn að vera þreyttur að fá alls kyns drasl sem hann hefur engan áhuga á) og svo taka þau Christopher Morris og Michele Clement aðra umferð fyrir gesti. Pia hefði nú haft meira gott af æfingunni en hún er ekki á dagskrá á morgun. Hvet alla ljósmyndaáhugamenn að fara til að sjá og heyra í Morris og Clement – vel þess virði!

2 thoughts

  1. Ja verð nú að segja að ég hefði vilja vera þarna. En ég get sagt þér að Ólafur Ragnar er gamall áhugaljósmyndari. Lenti einmitt á spjalli við hann um það í brúðkaupi fyrir nokkrum árum.

  2. Jæja það var gott að heyra, þá hefur hann væntanlega gaman af þessu á morgun. Varstu að mynda í þessu brúðkaupi og hann gestur?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *