Styttist í Flateyjarferð

Þá fer að koma að því að ég og vinir mínir förum í hina árlegu Flateyjarferð. Við hjónin komumst ekki í fyrra með krakkana og ég er búinn að naga mig í handabökin síðan. Það er yndislegt að vera í eynni með börnin, njóta náttúrunnar og félagsskaparins við alla bestu vinina. Vinahópurinn stækkar jafnt og þétt og í ár er svo komið að húsið Ásgarður (sem er það stærsta á eynni fyrir utan félagsheimilið) rúmar ekki alla og því verðum við í tjaldi. Brrrr… svolítið kalt í ár, en maður lætur sig bara hafa það. Reyndar var verið að redda leigu á öðru húsi, en það er ekki staðsett í þorpinu heldur nær höfninni. Það er nefnilega töluverður spotti þar á milli. En það er gott að hafa það svona í bakhöndinni og ekki spillir fyrir að þar er hægt að komast í sturtu, sem er lúxus í Flatey. Þar er nefnilega ekkert vatn annað en mýrarvatn, sem er ekki hæft til drykkjar. Við höfum því alltaf tekið mikið af vatni með okkur og svo er rigningarvatni safnað af húsþökum. Baðið hefur maður svo bara þurft að taka í sjónum. Back to basics! Svo verður farið út á Breiðafjörðinn og veiddur þorskur á handfæri. Það er algjör snilld. Við höfum stundum lent í þvílíku mokfiskeríi að báturinn fyllist og menn hafa verið í aðgerð fram undir nótt.

Flatey

Fremstur í flokki í veiðiskapnum er hann Hlynur Þór sem sést hér gera að fiski. Hann iðar bókstaflega í skinninu þegar hann er kominn í Flatey, svo spenntur er hann að komast á sjóinn að veiða. Menn ganga nefnilega svolítið í barndóm í Flatey enda ekki annað hægt. Og börnin verða villibörn og eru úti allan daginn að leika sér. Það þarf ekkert að hafa fyrir þeim annað en að passa að þau fari sér ekki að voða. Hér eru nokkrir ormar í stuði í Flatey, en þessar myndir voru teknar 2003.

Flatey

Í ár verður tekið svolítið af myndum eins og við er að búast. Ég er fyrir löngu búinn að taka saman dótið og raða í tösku. Þetta eru oft heilmiklar pælingar hvað skal taka með. Fyrir nörrana þá er hér listinn yfir hvað fer með í ár:

Canon EOS 1Ds Mark II, Canon EOS 5D, TS-E 24mm f/3.5, EF 50mm f/1.4, EF 17-40 f/4 og EF 70-200 f/2.8 IS.

Svo er maður náttúrulega með Powerbook-inn og eitthvað af aukadóti eins og 1.4x extender, filtera, þrífót og svoleiðis. Ég get varla beðið eftir því að komast, en við leggjum í hann snemma á morgun og tökum svo frí á föstudaginn og fáum þannig góða fjóra daga! Ég pósta án efa e-h myndum hér að ferðinni lokinni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *