Flatey 2006

Flatey 2006
Jæja, þá er Flateyjarferðinni lokið. Enn og aftur fengum við frábært veður. Það var reyndar nokkuð kalt þegar við lögðum af stað úr Árbænum en við létum það ekkert á okkur fá og brunuðum af stað til Stykkishólms. Þegar Baldur lagði af stað frá bryggju sátum við úti, en vorum nú reyndar fljót inn enda olíubrælan úr dallinum að kæfa alla. Þetta nýja skip er töluvert stærra og hraðskreiðara en gamli Baldur og nú er maður ekki nema rúman klukkutíma í Flatey. Aðstaða fyrir farþega er stórbætt, en þjónustan um borð ekki alveg í takt. Það tók ógnartíma að fá afgreiddan matinn sem nokkrir úr hópnum pöntuðu. Þeir síðustu fengu kafteinsborgarann svona 25 mínútum áður en við lögðum að bryggju í Flatey. En gefum þeim séns, það er ennþá vetraráætlun og svona.

graenmetiÞað var nóg af farangri sem fylgdi okkur eins og áður. Hópurinn hefur aldrei verið stærri og því var farangurstæðan í sögulegu hámarki. 200kg af grænmeti fóru víst líka með. Nei, við erum ekki grænmetisætur. Við búum bara svo vel að hafa góð sambönd í grænmetisbransanum. Það dugðu ekki færri en þrjár ferðir á traktor með kerru til að flytja farangurinn í húsin. Við vorum svo heppin að geta leigt annað hús í eynni, þannig að enginn þurfti að vera í tjaldi. Eins gott því það var nokkuð kalt fyrstu tvo daganna. Svona ferðir eru ómissandi til að hlaða rafhlöðurnar jafnt líkamlega sem andlega. Það er ekki síst hugurinn sem hvílist. Þarna er ekkert til að trufla mann. Enginn tölvupóstur, gemsar eða sjónvarp. Kríugargið hefur aldrei hljómað jafn vinalega. Börnin njóta þess að vera úti við allan daginn og leika sér við að veiða marglyttur. Ég sá varla stelpurnar mínar allan tímann, en þær eru 7 og 8 ára. Litli pjakkurinn var líka á fullu um allt, en maður þarf sko að fylgjast vel með honum. Konan mín komst ekki með okkur á fimmtudeginum en kom í fjölskyldufaðminn á föstudaginn – ásamt leynigestinum! Andri Snær hafði ekki reiknað með því að komast með í ár, en það breyttist og hann fór því samferða Margréti. Það var gott að fá skáldið í kaupbæti. Svona snillingur er alveg ómissandi í hópinn.

Þessi ferð var nokkuð óvenjuleg að því leyti að við fórum ekkert út á Breiðafjörðinn að veiða. Báturinn var svolítið laskaður á kilinum og því þurfti að laga það. vidgerdÞrátt fyrir vel heppnaða viðgerð hjá Hlyn og Ella fórum við ekkert út til veiða. Aðalástæðan var sú að það var ansi kalt og Kári blés nóg til þess að okkur þótti ekki fýsilegt að fara út. Þetta er nefnilega vatnabátur sem ristir frekar grunnt. Ef það er svolítill vindur rekur hann hratt og færin ná aldrei almennilega niður. Þannig að það var lítið um þá rómantík að draga inn fallegan Þorsk á handfæri og gera að fiski fram eftir kvöldi. Í staðinn var bara spjallað og notið samvistar við góða vini.

Svo fékk maður auðvitað tækifæri til að rölta um og mynda. Stór hluti eyjunnar er reyndar friðaður fyrir mannaferðum á þessum tíma sökum varps. Þannig að ég gat nú ekki farið alveg hvert sem er. Þorpið með gömlu húsunum er alltaf fallegt og svo fór ég niður að bryggju að gamla frystihúsinu. Nóg af drasli þar.texaco Svolítil synd þar sem það gefur svo kolranga mynd af Flatey. Það þyrfti að taka aðeins til hendinni þar. Reyndar finnst mér að vissu leyti sjarmi yfir yfirgefnum húsum sem eru að grotna niður, en það er full mikið af drasli þarna. Ágætis myndefni þó.

Við lögðum svo af stað heim rúmlega sex á sunnudagskvöldið í yndislegu veðri. Heitasti dagurinn til þessa og fyrir hádegið var algert logn. Þá klæjaði suma í að komast út á sjó. En það var ekki tími til þess. Bíður betri tíma. Við fjölskyldan ákvaðum að í stað þess að snæða kvöldmatinn í Baldri myndum við fá okkur eitthvað í Hólminum. Hefðum betur sleppt því. Fimm Fiskar heitir veitingarstaður í Stykkishólmi sem ég mæli ekki sérstaklega með. Fyrst á litið leit út fyrir að þetta væri þokkalegasti staður, en þegar hamborgararnir birtust kom í ljós þurrir borgarar í brenndu brauði. Sem betur fer klúðruðu þeir pöntuninni líka, svo ein af barnamáltíðunum gleymdist. Sagði þeim bara að sleppa henni. Börnin vildu hvort eð er ekki borða brenndan borgarann og nörtuðu bara í franskar í staðinn. Konan pantaði sér súpu dagsins ásamt salati og brauði.

Hópurinn

Það var brandari. Súpa dagsins átti að vera grænmetissúpa, en eina grænmetið sem sást í henni voru örsmáir paprikubitar. Salatið var kínakál, tómatur (sem var svo maukaður að maður hefði hent honum) og hálfur rauðlaukur, allt saxað niður og lagt á disk eins og það væri meðlæti fyrir tacos. Brauðið kom tíu mínutum seinna og var einhvers konar brauðspjót – nýbakað en grjóthart. Einhver furðulegasta máltíð sem ég hef séð lengi. En hey, maður bara kvartar og fær afslátt og lærir af reynslunni. Maður á alltaf að láta vita ef maður er ekki ánægður. Engan dónaskap, heldur bara segja það sem manni finnst. Allir geta gert mistök. Frökenin gaf mér afslátt og baðst afsökunar. Þau viðbrögð voru til fyrirmyndar. Veit samt ekki alveg hvort ég gef staðnum séns aftur.

Ég bjó til smá vefgallery með myndunum frá Flatey.

One thought

  1. Ég var að vafra um netið, skoða myndir úr Flatey og datt inn á myndir frá þér. Ekki til betri staður á jarðríki. Langaði svo bara (þar sem ég er nú ættuð frá og uppalin í Stykkishólmi) bara að benda þér á að fara á Narfeyrastofu með hópinn næst. Lofa þér að þú verður ekki fyrir vonbrigðum þar. Bestu hamborgarar í heimi ég fullyrði það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *