Hvítasunnan

Frekar óvenjuleg Hvítasunna hjá mér í ár. Konan og börnin fóru til London á föstudeginum ásamt systur minni og hennar börnum – til að heimsækja hina systur mína og barn (já ég veit að þetta er pínu ruglingslegt). Ég var þéttbókaður með brúðkaups- og fermingartökur um helgina, svo ég komst auðvitað ekki með. Skrítið þegar maður er allt í einu einn í kotinu. Maður kann ekki að sofa út lengur. Vaknaði klukkan átta á laugardaginn og vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera. Svo fékk ég líka þessa snildarhugmynd að ganga á Esjuna.

Esja

Þrátt fyrir að vera kominn upp í hlíðarnar rétt rúmlega níu voru margir þar á undan mér, enda fallegt veður og Esjuganga vinsæl. Það var orðið nokkuð langt síðan ég gekk síðast á Esjuna og hún tók meira á en mig minnti! Ég var rúman klukkutíma upp, með ljósmyndastoppum þó (fín afsökun til að kasta mæðinni). Ég kvittaði í gestabókina sem geymd er á toppnum, en það er svona týpisk stílabók. Hún var næstum orðinn full þó að hún væri aðeins frá 16. maí! Það segir mikið um vinsældir þess að ganga á fjallið. Á leiðinni upp er þessi fallegi foss í myndarlegu gljúfri.

Esja Foss

Veit e-h hvort gljúfrið eða fossinn bera nöfn? Þetta er gott dæmi um fallega náttúru og myndefni sem er eiginlega of nálægt manni til að maður kveiki. Það er stundum eins og maður þurfi fyrst að aka nokkur hundruð kílómetra til að taka fallega landslagsmynd. Ég var bara nokkuð ánægður með mig að hafa drullast af stað. Þegar ég fékk MMS myndskilaboð frá systur minni sem sýndi alla í picknik í London, gat ég hringt montinn og sagt þeim að ég væri nú búinn að ganga á Esjuna sko! (ekkert bitur). Hér er svo mynd sem sýnir útsýnið frá toppi Esjunnar, sem reyndar er ekkert allt of greinilegt út af mistrinu sem liggur yfir.

Esja utsyni

Annars var helgin mjög góð. Skemmtilegar tökur hjá mér. Á laugardaginn var það brúðkaup hjá gömlum skólafélaga úr MS, honum Davíð sem var að giftast henni Tinnu sinni. Fallegt brúðkaup í Fríkirkju Hafnarfjarðar, myndataka á eftir í Hellisgerði og svo veisla í Haukaheimilinu. Svo var annað skemmtilegt brúðkaup á Úlfljótsvatni á sunnudaginn. Það var óvenjulegt í alla staði og gaman að taka þátt í því. Nú er bara að byrja að vinna úr afrasktri helgarinnar…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *