F

Enn ein vikan á enda. Mikið rosalega munar það miklu þegar vinnuvikan byrjar á þriðjudegi. Góður vinur minn sagði við mig um daginn að hann stefndi á 4 daga vinnuviku innan 10 ára. Athyglisverð pæling. Ég er sjálfstætt starfandi þannig að málið er nokkuð afstætt fyrir mig. Það þykir mikil dyggð hér á landi að vinna mikið – vera duglegur. Lang best að allt sé brjálað að gera. Þess vegna er meira en að segja það að taka ákvörðunina um að starfa sjálfstætt. Þannig axlar maður alla ábyrgðina sjálfur á verkefnum og tímanum sem fer í þau. Það tekur drjúgan tíma að síast inn að maður þarf ekki endilega að vinna þessu hefðbundnu tíma eða daga. KrakkarnirVerkefnin hjá mér eru yfirleitt þannig að ég get stýrt tímanum mjög vel og get auðveldlega tekið “frí” á virkum degi ef mér sýnist svo. Samt finnst mér ég stundum vera að svíkjast um ef ég er ekki alltaf að. Það er ekki fyrir alla að vera sinn eigin yfirmaður svo mikið er víst. Ég vildi samt ekki skipta og ráða mig aftur í fast starf. Ég hef svo miklu meiri tíma með fjölskyldunni í dag en ég hafði áður. Það er ekki lítið atriði þegar maður er svo ríkur að eiga þrjú börn og yndislega konu.

Ég borðaði annars frábæran hádegisverð í dag með góðum vini. Við Árni fórum á Shalimar í Austurstræti. Inversk/pakistanskur matur sem var alvöru stöff. Ekki einhver útvötnuð vesturlandaútgáfa eins og flestir þessir staðir eru orðnir. Hafið þið pælt í því hvað margir af þessum asísku matsölustöðum bjóða upp á nákvæmlega sömu réttina: Núðlur með kjúkling, djúpsteikar rækjur með súrsætri sósu, og svo e-h lamba- svína og nautakjötsréttir sem allir bragðast eins? Á Shalimar fengum við okkur kraftmikinn kjúklingarétt sem fékk svitan til að spretta, ferskan grænmetisrétt ásamt hvítlauks Nan-brauði (sem er það besta sem ég hef smakkað) og basmati hrísgrjónum. Mæli eindregið með þessum stað fyrir þá sem vilja bragða góðan indverskan mat.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *