Tjaldstæðið í Vaglaskógi er frábært. Ég furða mig á því að hafa ekki verið þar áður í tjaldi því ég ferðaðist mikið um landið þegar ég var pjakkur með pabba í ýmsum ljósmynda- eða söluferðum. Tjaldstæðið er nokkuð stórt og hægt að velja um marga góða staði. Við völdum okkur fallegan og skjólsælan stað nálægt ánni, sem heitir Fnjóská og dalurinn Fnjóskadalur.
VaglaskógurÞað munaði 4-5 gráðum á hitastigi inn í Vaglaskógi miðað við Akureyri, en samkv. mælinum í bílnum var 19 stiga hiti þar á móti 14 á Akureyri. Við fórum og fengum okkur ís á Akureyri og keyptum í matinn til að elda í tjaldinu og fá þannig hámarks útilegustemningu.kids_akureyri.jpg
Það er e-h svo frábært við það að elda á litlum prímus og borða mat við lítið borð úti í guðsgrænni náttúrunni. Ég fæ næstum sama fiðringinn í magann og þegar ég var á ferðalagi sem barn. Og ekki spillir fyrir að vera í svona góðu veðri og í fallegu umhverfi eins og í Vaglaskógi. Það væri nú ekki ónýtt ef við hefðum aðeins fleiri tré og skóga hér á þessu ágæta landi. Á meðan við vorum þarna fór ég að hugsa til Viborg þar sem við bjuggum um tíma á meðan ég var við nám. Þar þurftum við rétt að ganga 100 metra frá íbúðinni okkar til að koma inn í fallegan skóg.Vaglaskógur Eins og þið sjáið á þessari mynd hérna til vinstri þá dettur manni ekki beint Ísland í hug þegar maður sér svona umhverfi. Í Vaglaskógi má finna hæstu birkitré landsins í kringum 15 metra há. Við fórum í gönguferð um dalinn með gríslingana, en það er hægt að velja um fjölda merktra leiða. Aðstaðan þarna er til fyrirmyndar, vel hugsað um allt og mjög snyrtilegt. Við komum örugglega aftur í sumar þegar við verðum á ferðinni um norðurland í kringum verslunarmannahelgina. Það er á planinu að fara af stað aftur um miðjan júlí. En næst á dagskrá er gönguferð um Öræfin við Snæfell með Augnablik. Það var undirbúningsfundur á miðvikudaginn var og við erum orðin frekar spennt. Það virðist vera smekkfullt í ferðina enda er síðasti séns að sjá margt af þessu svæði í sumar, þar sem lónin fyrir Kárahnjúkavirkjun munu sökkva því. Ég fæ illt í magann að hugsa til þess. Sá magaverkur mun ágerast eftir ferðina, það er nokkuð ljóst.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *