Jæja, þá loks hefur maður smá tíma til að pósta um ferðina. Við lögðum af stað austur á miðvikudeginum. Það var suddi og þoka alla leiðina og lítið sem ekkert útsýni. Ekki fyrr en við vorum komin niður á Hérað frá Breiðdalsheiðinni. Fórum fjallveginn Öxi sem tengist inn á Breiðdalsheiðina. Svolítið svakalegur í svona þoku, enda vel brattur. Hæst liggur vegurinn í ríflega 500 metrum yfir sjávarmáli. Upphaflega ætluðum við að tjalda í Hallormsstað en ákvaðum að vera frekar á tjaldstæðinu á Egilsstöðum til að hafa meiri tíma á fimmtudagsmorguninn. Tjaldstæðið á Egilsstöðum var (eins og flest tjaldstæði í dag) fullt af fellihýsum, hjólhýsum og húsbílum. Bara við og útlendingarnir í tjöldum. Fólk sat þarna inni í húsbílum og horfði á HM! What’s the point? Af hverju situr maður ekki bara heima hjá sér og horfir á sjónvarp? Furðulegur andskoti. Svo þarf að setja þessur elskur í samband auðvitað. Og þegar rafmagnstengin eru ekki nógu mörg á tjaldstæðinu setja þessir snillingar bara í gang og leyfa okkur hinum að anda að okkur þessum líka fína hráolíureyk, alveg ókeypis.

egilsstadir_tjald.jpg

Á fimmtudagsmorguninn var komin sól og blíða og við tókum saman tjaldið í brakandi þurrki og undirbjuggum okkur fyrir fyrsta daginn í þessari fimm daga gönguferð. Hópurinn safnaðist saman á flugvellinum, en flestir komu fljúgandi að sunnan. Á flugvellinum tók Sibbi bílstjóri á móti okkur og tilkynnti að það ætti að hafa sundfötin með í dagpokanum. Von bráðar voru allir mættir við rútuna Maddý og við gátum lagt af stað. Við fengum skemmtilega leiðsögn á leiðinni, en hún var í höndum heimamannsins Þorsteins bónda. Við ókum svo upp að Kárahnjúkum og virkjanasvæðinu. Fórum út úr rútinni við Hafrahvammagljúfur, fyrir neðan stífluna við fyrirhugað Hálslón. Þessi gljúfur eru líka nefnd Dimmugljúfur.
Hafrahvammagljufur.jpg

Gljúfrin eru alveg hreint ótrúleg, enda mestu árgljúfur landsins. Það er skrítið að hugsa til þess að áin muni þorna og eina rennslið um gljúfrin verður frá yfirfallinu úr lóninu. Yfirfallið við stífluna verður tilbúinn foss. Svona álíka spennandi og gervigoshverinn við Perluna. Á virkjanasvæðinu má sjá upplýsingaskilti með tölvugerðum myndum þar sem er búið að taka loftljósmyndir og setja svo mannvirkin inn í þrívíddarforritum. Stolltir sýna menn þessa vitleysu! Ég gerði líka algera vitleysu þennan dag. Sturta.jpgÉg fékk nett stresskast þegar ég uppgvötaði það að ég hafði gleymt að taka með mér fleiri en eitt minniskort. Ég var s.s. bara með eitt 4GB kort í vélinni og svo Epson P-2000 græjuna til að geta hlaðið niður myndunum. Gallinn er bara sá að það tekur hátt í 20 mínútur að tæma fullt 4GB kort. Þess vegna hefði verið svolítið sniðugt að taka með a.m.k. eitt auka kort. þar sem ég var með ekki færri en sex kort í ljósmyndatöskunni í bílnum við Egilsstaðaflugvöll var ég frekar pirraður út í sjálfan mig. Ég var því fljótur að níðast á Þorvaldi eða ÞÖK ljósmyndara Morgunblaðsins, sem til allrar hamingju var þarna með okkur þennan fyrsta dag að ljósmynda fyrir grein sem birtist í Tímariti Morgunblaðsins nú á sunnudaginn. Hann var með auka kort sem hann var svo almennilegur að lána mér. Heppinn. Eftir að hafa gengið niður með gljúfrinu var gengið yfir Skógarháls áleiðis til Laugarvalla. Þar stóð til að fara í heita laug sem er þar frá náttúrunnar hendi. Hún var yndisleg og ekki var sturtan sem rennur úr lauginni síðri. 38 gráðu heit og fallið á vatninu mátulega mikið til þess að nudda vel á manni bakið. Við Laugarvelli fengum við líka nesti og heitt te og kaffi. Þegar allir voru orðin hreinir og mettir var lagt í hann upp að Sauðafellsöldu þar sem við tjölduðum í fallegri kvöldbirtu og Snæfell blasti við okkur. Daginn eftir skildi haldið inn á Kringilsárrana, í land Heiðargæsa og Hreindýra. Nú hafði skýjað yfir og byrjað að rigna. Við fórum snemma í háttinn þetta fyrsta kvöld, passlega þreytt eftir frekar auðveldan göngudag.

Saudafellsalda.jpg

One thought

  1. Íslendingar í hnotskurn, tillitsemin alltaf til staðar. FEF!

    “Og þegar rafmagnstengin eru ekki nógu mörg á tjaldstæðinu setja þessir snillingar bara í gang og leyfa okkur hinum að anda að okkur þessum líka fína hráolíureyk, alveg ókeypis.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *