Það var ansi blautt að leggja af stað á öðrum degi. Það hafði ringt alla nóttina og hélt áfram að rigna. En það var ekki slagveður og hitastigið var í þokkalegu lagi. Við gölluðum okkur upp og gengum af stað niður að Kringilsá. Við ármót Kringilsár og Jöklu er ákaflega falleg Stuðlagátt, sem er svo gott sem nýuppgvötuð. Því er nafnið á þessum stað nýtt og komu margir að því að finna rétta nafnið.
Studlagatt.jpg

Bergið þarna er magnað og í því mátti sjá gamalt Fálkahreiður (beint fyrir ofan menneskjuna lengst til vinstri). Í því voru ungar í fyrrasumar, samkvæmt Ósk og Ástu fararstjórum. Til að komast yfir Kringilsána þarf að fara með kláfi, sem er nýlegur og vönduð smíð eftir Guðmund Ármannsson bónda á Vaði í Skriðdal. Engu að síður voru nokkrir í hópnum skelkaðir, enda nokkuð ljóst að ef maður myndi fara í ána þarna, væri lítil hætta á því að maður sæist aftur, slíkur er krafturinn í beljandi fljótinu. Þetta svæði verður á um 100m dýpi í fyrirhuguðu Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar.
Tofrafoss.jpg

Við gengum svo upp með ánni hinum megin og skoðuðum ótrúlegar flúðir og fossa. Myndir ná engan veginn að skila upplifuninni á þessari einstæðu náttúru. Hápunkturinn er svo Töfrafoss. Þessi foss gefur okkar fallegustu og best þekktu fossum ekkert eftir. Hann mun einnig hverfa undir fyrirhugað Hálslón. Við héldum svo áleiðis inn á lansvæði dýranna. Okkur var sagt að við myndum mjög líklega sjá Hreindýr og Gæsir.

Hreindyrahjord.jpg

Það var ákveðið að halda nú áfram í hljóði næsta hálftímann eða svo. Það er áhrifaríkt að ganga með tæplega 50 manns og enginn segir orð. Allir nutu þess bara að horfa og hlusta. Og eftir örfá skref sáum við Hreindýrahjörð. Hún var nokkuð langt frá okkur, en það er alltaf jafn tignarlegt að sjá þessi fallegu dýr. Við reyndum að nálgast þau en hjörðin var frekar stygg. Nú héldum við áfram að hinum sérstæðu Hraukum en þeir myndast þegar Brúarjökulinn skríður fram á óvenju miklum hraða og ýtir jarðveginum á undan sér.

Bard.jpg

Með í hópnum voru miklir fræðingar sem gátu ausið úr viskubrunnum sínum og þannig gert skemmtilega ferð enn betri fyrir okkur hin. Á þessari mynd má sjá jarðlögin í Hraukunum, en þetta rof er ekki eftir jökulinn heldur eftir vísindamenn sem hafa verið á svæðinu við rannsóknir. Um 25% af friðlandinu á Kringilsárrana mun fara undir fyrirhugað Hálslón. Við gengum svo áleiðis tilbaka að kláfnum, eftir að hafa farið góðan hring um svæðið. raninn.jpgÞað ringdi látlaust og maður var farinn að verða svolítið lúinn. Bakpokarnir voru líka blautir í gegn og þar með drjúgur hluti af aukafötunum okkar. En maður hafði samt einhvern veginn engar áhyggjur af því. Þetta svæði er svo fallegt að maður bara líður áfram í hálfgerðum trans við að skoða fallegan gróður, ummerki eftir dýr og einstaka litadýrð, sem verður enn sterkari í votviðrinu. Eftir heilan dag inn á landi dýranna var það góð tilfinning að koma tilbaka í tjaldbúðir og fá sér rjúkandi heitt kaffi hjá Brynhildi. Eftir jóga og frábæran kvöldverð (dýrindis kjötsúpu) fórum við hjónin í smá kvöldgöngu upp á fellið fyrir ofan tjaldbúðirnar. Nú hafði létt töluvert til og við sáum yfir svæðið sem við höfðum gengið í þokunni fyrr um daginn. Það var magnaður endir á einstökum degi.

saman.jpg

2 thoughts

 1. Komdu sæll Christopher!
  Þakka þér fyrir síðast í ferðinni. Þetta eru frábærar myndir og skemmtileg ferðasaga. Hlakka til að sjá fleiri myndir og lesa þína upplifun af ferðinni.
  Bið að heilsa Margréti.

  Kveðja, Anna

 2. Takk sömuleiðis fyrir síðast. Þetta var mögnuð ferð. Ég held ferðasögunni áfram von bráðar, verður samt smá bið þar sem ég er á leiðinni út úr bænum.
  kveðja
  Chris

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *