Jokulsabru.jpg

Á þriðja degi ferðar var gengið niður með Jökulsá á Brú, frá tjaldbúðunum við Sauðafell og nánast alla leið niður að stíflunum við Kárahnjúka. Allt svæðið sem við gengum um mun fara undir fyrirhugað Hálslón. Þessi dagur var nokkuð strembinn. Bæði vegna þess að það var gengið frekar langt, en ekki síður vegna þess að honum lauk með þögulli mótmælastöðu fyrir ofan framkvæmdirnar við stíflunar. Það var svolítið táknrænt að það gerði úrhelli um leið og við vorum búin að raða okkur upp í beina röð til að hefja mótmælastöðuna. Þar stóðum við þögul og horfðum yfir svæðið þar sem verkamenn voru eins og litlir appelsínugulir maurar utan á stíflunni. Maður horfði yfir vinnusvæðið og hlustaði á hljóðin í vélunum á meðan rigningin dundi köld á manni. Svona stóðum við í tíu mínútur. Síðustu mínútuna af mótmælastöðunni birti skyndilega til, sólin varpaði ljóskeilu yfir svæðið sem annars var grátt og drungalegt. Þegar tíminn var liðinn safnaðist hópurinn saman í einn hnapp þar sem Margrét Vilhjálmsdóttir leikkona las ljóðið Ákall eftir Hákon Aðalsteinsson. Það voru margir í hópnum votir um augun á þessari stundu og það var ekki vegna regns.

Holtasoley.jpg

Við ókum því næst í rútunni upp að Snæfelli. Við vorum ríflega tveimur tímum á eftir áætlun vegna kvikmyndatökuliðsins sem fylgdi okkur og því voru margir sem kusu að gista í skálanum við Snæfell þessa nótt, þar á meðal ég og konan mín. Skálinn var miklu stærri en ég hélt. Ég hef einu sinni áður komið þarna uppeftir en fór þá ekki að skálanum. Það var ósköp notalegt að sofa eina nótt þar inni í góðum hita, en tjaldbúar sögðu reyndar að þetta hafði verið heitasta nóttin til þessa í tjaldi, sökum þess að það var algert logn um nóttina. Engu að síður snjóaði aðeins þegar fólk gekk til náða. Á morgun skildi annað hvort haldið inn á Eyjabakka eða upp á Snæfell ef veður leyfði. Nú var enn einn frábær dagur á enda í þessari ferð okkar um Öræfin í fylgd Augnabliks.

Snaefellsskali.jpg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *