Tilbaka

Þá erum við fjölskyldan komin tilbaka í Hraunbæinn. Við erum búin að vera svo mikið á ferðinni síðasta mánuðinn að það er hálf skrítið að koma í hús og vera ekki á leiðinni af stað aftur í ferðalag innan nokkra daga! Þessi vikulanga útilega með systrum mínum lukkaðist stórvel. Við byrjuðum í Húsafelli (sounds familiar?) þar sem við hittum Hlyn og Guðrúnu með strákana sína. Við vorum þar með þeim tvær nætur og héldum svo saman vestur á Snæfellsnes þar sem við tjölduðum á Arnarstapa.

Búðaströnd

Þar áttum við frábæran dag með alvöru strandferð. Það var um 20 stiga hiti við Búðir og við nutum þess að slaka bara á og sleikja sólina við einstakar aðstæður (miðað við Ísland alla vega!) Við Hlynur tókum meira að segja smá sjósund, enda ekki annað hægt til að fullkomna strandferðina. Hitastigið á sjónum var svona þokkalegt þar sem sólin náði að verma aðeins grunnsævið og því hressandi að baða sig í söltum sjó.

Hellnar

Daginn eftir fórum við að Hellnum sem er alltaf gaman, enda sérstaklega fallegt svæði. Þar er líka fyrirtaks matsölustaður sem heitir Fjöruhúsið þar sem við snæddum hádegisverð. Hlynur og Guðrún þurftu svo að halda heim á leið, en við héldum hins vegar norður á boginn, alla leið á Hóla í Hjaltadal. Þar tjölduðum við í gylltri kvöldbirtu og tókum svo gönguferð um svæðið.

Hólar

Það er töluverð skógrækt við Hóla og gott tjaldstæði. Börnunum finnst líka mjög gaman að leika sér í skóginum. Við þurftum reyndar að leita af yngsta fjölskyldumeðlimnum oftar en einu sinni! Á meðan við vorum með bækistöð á Hólum skoðuðum við m.a. Hofsós og Samgönguminjasafnið að Stóragerði áður en við pökkuðum saman til að halda í Aðaldalinn, en við Margrét vorum á leið í brúðkaup þar á laugardeginum. Við fórum lágheiðina og í gegnum Ólafsfjörð og Dalvík á leiðinni, skemmtileg leið og skynsöm því nú var föstudagsumferð verslunarmannahelgar hafin og mjög margir á leiðinni til Akureyrar enda spáin best fyrir Norðurlandið. Eftir stutt stopp á Akureyri til að fá sér hressingu, skoða mannlífið og kaupa kjöt á grillið héldum við áfram inn í Aðaldal. Þar tjölduðum við á Jónasarvöllum í ríflega 20 stiga hita. Krakkarnir gáfu hestum sem voru nálægt gulrætur að borða. Þeir vildu þær nú ekki allir, en tveir voru mjög hrifnir eins og sjá má.

Jónasarvellir

Við fórum svo í brúðkaupið á laugardeginum (sem var frábært) en systur mínar héldu á Mývatn með krakkana (snilld að fá svona farandspössun!). Á sunnudaginn fóru þær svo tilbaka í bæinn en við tókum því rólega og gistum tvær nætur í sumarhúsinu Kambi ásamt tengdafólki mínu og komum svo heim um miðjan dag í dag. Og þá er þessi ferðasaga víst öll.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *