Ó öræfin, ferðalok

vid_skala.jpg

Jæja, þá ætla að ég loksins að klára ferðasöguna úr Öræfaferðinni sem ég fór ásamt konunni í byrjun júlí. Á fjórða degi var gengið frá Snæfellsskála áleiðis í átt að Eyjabökkum. Veðrið var orðið fínt, svo gott að þegar ljóst var að Snæfell væri búið að “rífa af sér” var ákveðið að ganga á fjallið og fá þannig útsýni yfir Eyjabakkana og stærsta hluta þess svæðið sem við vorum búin að skoða áður.

Snæfell

Gangan á Snæfell er ekki svo erfið enda liggur skálinn í um 800 metrum yfir sjávarmáli. Snæfell er 1833m hátt svo hækkunin er ekki nema rétt um 1000m. Gangan gekk vel og við nutum fræðslu um jurtir frá henni Þóru Ellen, sáum meðal annars Jöklasóley nokkuð víða. Það var mikil upplifun að ganga fjallið í góðum félagsskap og í þvílíkri blíðu.

Jöklasóley

alda.jpg

Við nestuðum okkur á þessari mögnuðu öldu og þar sem við sátum og drukkum Teið okkar blasti við frábært útsýni yfir Eyjabakkana, Eyjabakkajökul og ekki síður yfir Vesturöræfin. Þeir sem voru fremstir í göngunni drifu sig áleiðis á toppinn. En skýin voru nú aftur farin að hrannast upp þegar ég lagði af stað. Ég snéri því við þegar útsýnið varð lélegt (ekkert hægt að mynda!). En það voru þó nokkrir sem fóru alla leið á toppinn. Þar á meðal tveir félagar, annar að verða 77 ára og hinn 73ja. Það er vonandi að maður verði svona hress á þessum aldri!

hatidarkvoldv.jpg

Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður í tjaldinu við Snæfellsskála. Brynhildur grillaði lambalæri með öllu tilheyrandi og bauð upp á dýrindis súkkulaðiköku í eftirrétt. Svo sýndi Ásta frábæra takta með nikkuna og skálavörðurinn í Snæfellsskála tók líka nokkur lög við góðar undirtektir. Það var sungið, dansað og spjallað fram á nótt.

joklufoss1.jpg

Síðasta daginn var gengið niður með Jökulsá í Fljótsdal. Hver ævintýrafossinn rekur annan á þessari fallegu leið niður Norðurdalinn. Það er furðulegt að standa við svona fallegar flúðir og fossa og ímynda sér að það eigi að skrúfa fyrir rennslið. Maður velltir því fyrir sér hvort þetta hefði yfirhöfuð verið til umræðu ef þjóðvegur lægi nær og fleiri þekktu þessa fossaröð? Það er líka ótrúlegur gróður í dalnum. Maður gengur niður úr hálendisgróðri niður í víði og einirunna. Neðar í dalnum liggur svo hæsti skógur Íslands. Dýralífið er líka fjölbreytt. Þarna voru Álftir með unga sem kom verulega á óvart þar sem straumþunginn er mikill. Kannski er þetta sundskóli fyrir ofurálftir? Ég sá líka Tófu skjótast upp hlíðina (náði ekki mynd því miður) og nokkrir í hópnum urðu vitni af því þegar Álft flaug rakleitt inn í fossinn Faxa. Við héldum að hún hafði drepist við höggið, en einn af göngumönnum sá hana víst klöngrast upp á grót um hálftíma síðar. Hópurinn var nokkuð dreifður þennan dag sem og aðra. Allir fengu þannig að stjórna hraðanum sjálfir. Fyrir ljósmyndarann er þetta upplagt því ég gat verið um miðjan hópinn og þannig haft göngufólk fyrir neðan og ofan mig við gljúfrin og fossana. Myndir af svona tilkomumiklum fossum og flúðum verða nefnilega að hafa fólk inn á þannig að maður átti sig á stærðarhlutföllum. En jafnvel þó að fólk sé með inn á myndunum er erfitt að fanga aflið og hughrifin með myndavélinni. Á neðri myndinni hérna þarf að hafa svolítið fyrir því að “finna” fólkið.

joklufoss2.jpg

jokulsa_gljufur.jpg

Þessi síðasti dagur var langur og það voru þreyttir en ánægðir göngumenn sem tóku síðasta jógað með Ástu við Glúmstaðasel þar sem Sibbi beið eftir okkur á rútunni. Við ókum því næst niður að Egilsstöðum og út á flugvöll þar sem flestir voru á leið í flug til Reykjavíkur. Við Margrét vorum akandi þannig að við skelltum okkur í sturtu í sundlauginni áður en við snæddum dýrindis kvöldverð með þeim Ástu, Ósk, Sibba, Brynhildi og Grétu á Egilsstöðum, sem er gamli Egilsstaðabærinn þar sem starfrækt hefur verið gistihús í áratugi. Þar er búið að endurnýja mikið á einkar smekklegan hátt og óhætt að mæla með matnum og glæsilegri umgjörðinni vilji maður gera vel við sig á Egilsstöðum. Við hjónin fengum okkur svo svefnpokapláss við Skipalæk í litlum bjálkakofa (sem eigendur Skipalæks kölluðu reyndar trétjald) síðustu nóttina okkar á Austurlandi. Þessi ferð gleymist ekki, svo mikið er víst.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *