Vík
Víkurkirkja

Jæja, löngu kominn tími á uppfærslu hér. Ég fór ásamt Andra Snæ austur á Öræfi síðastliðinn sunnudag. Við vorum nokkuð seinir af stað þannig að við náðum ekki alla leið á Kárahnjúka í fyrstu atrennu. Við vorum komnir að Skaftafelli klukkan 01.00 og í stað þess að vekja hálft tjaldstæðið ákváðum við bara að gista í bílnum. Hefðum betur vakið hálft tjaldstæðið svona eftir á að hyggja. Ég get ekki beint sagt að ég mæli með því að sofa í framsæti á Ford Escape. Við lögðum aftur af stað klukkan sex á mánudagsmorgninum og vorum komnir upp að Kárahnjúkum um hádegið, eftir að hafa stoppað nokkrum sinnum á leiðinni. Það var ekki hægt annað því veðrið lék við okkur. Hér að neðan má sjá tugþúsundir Álfta á Lónsfirðinum. Þær virka eins og smá gárur í þessari stærð.

alftir
Lónsfjörður

Tilgangur ferðarinnar var að skjóta kvikmynd úr þyrlu fyrir heimilidarmynd, eins konar Draumalandskvikmynd. Þyrlan flaug úr bænum á mánudagsmorgninum. Það var magnað að vera við Töfrafoss þegar hún kom allt í einu fljúgandi aftan að okkur, tók tvo hringi um fossinn og lenti svo rétt við þar sem við stóðum. Þeir voru búnir að filma efni víða á leiðinni og fengið einstakar myndir, m.a. inn í Kverkfjöllum og Lónsöræfum.

chopper.jpg
Andri Snær við þyrluna við Töfrafoss í Kringilsá

Við Andri fengum svo að fljúga yfir Kringilsá og út með Jökulsá á Brú, að vinnubúðum Impregilo þar sem þyrlan tók eldsneyti. Að því loknu fórum við aftur tilbaka að Kringilsá, til leikstjórans Þorfinns Guðnasonar og tökumannsins Jón Þórs sem voru þar að filma á meðan. Þyrlan tekur ekki nema tvo farþega þegar það er verið að skjóta með Giro búnaði úr henni á hlið (Giro er búnaður sem vinnur á móti titring). Einnig var filmað frá nefi þyrlunnar sem gefur oft ótrúleg sjónarhorn. Í seinni þyrluferðinni okkar flaug Jón “Spaði” niður í gljúfur Kringilsár og skreið svo bókstaflega í 2m hæð yfir flúðunum alla leið upp að Töfrafossi þar sem hann skrúfaði hana svo í hring. Það mátti heyra skáldið skríkja af gleði enda er svona flug stórkostleg upplifun. Þegar þeir fóru af stað að filma aftur gengum við Andri niður með Kringilsá að Stuðlagáttinni í ótrúlegri kvöldbirtu. Við gistum þessa nótt á Seyðisfirði, nánar tiltekið á Skálanesi hjá frændfólki hans Andra. Skemmtilegt fólk og fallegur staður, meira að segja í svartaþoku.

Skalanes
Í þoku við Skálanes

Á þriðjudaginn vorum við komnir á svæðið aftur um þrjúleytið. Við biðum eftir þyrlunni við vinnubúðirnar. Andri fór svo með þeim en ég lagði af stað akandi í átt að Tröllagilslæk við Jökulsá á Brú. Það stóð til að kvikmynda Andra úr lofti við Töfrafoss og mig við Rauðuflúð. Það var sérstök upplifun að ganga einn upp með ánni. Ómar Ragnarsson flaug tvisvar lágt yfir mig, en annars varð ég ekki var við mannaferðir. Eftir nokkra stund við Rauðuflúð heyrði ég þyrlusmellina í gegnum gnýinn úr Jöklu. Ólýsanlegt að standa fyrir framan þessar stórkostlegu flúðir með þyrlu sveimandi í kringum sig, mun nær en flestum myndi finnast óhætt. Ég var ekki smeykur því Jón þyrluflugmaður er í heimsklassa. Í svona flugi er hann sérstaklega flinkur enda með mikla reynslu sem bæði tökumaður og þyrluflugmaður.

Jon_spadi.jpg
Jón “Spaði” á Bell Long Ranger við Kringilsá

Að tökum loknum fór Andri úr þyrlunni við Rauðuflúð og við gengum tilbaka niður með Jöklu í átt að virkjanasvæðinu. Við héldum svo heim á leið, mjög sáttir eftir tvo frábæra daga á Öræfum. Við stöldruðum við á Djúpavogi í kvöldmat á Hótel Framtíð og tjölduðum við Svínafell rétt fyrir miðnætti. Vorum að spá í að keyra alla leið heim um nóttina, en eftir að hafa ekið í um klukkustund í svarta myrkri var ég nánast kominn í trans af því að horfa í myrkrið og svo endurskinið af vegstikunum. Þetta var meiriháttar ferð hjá okkur og mér líður eins og ég hafi verið þarna í viku en ekki tvo daga.

One thought

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *