Framsetning myndasýninga í tölvum

Ljósmyndasýningin frá Öræfunum sem ég setti saman um daginn hefur vakið töluverð viðbrögð. Ég veit til þess að í einu tilfelli varð það til þess að viðkomandi skráði sig ásamt maka í ferð með Hálendisferðum helgina á eftir. Ég viðurkenni að ég er monntinn yfir því. Svo virðist sem margir hafa ekki áttað sig á því hversu fjölbreytta náttúru væri að finna á þessu svæði. Kannski ekki svo skrítið miðað við það hvers konar myndefni hefur aðallega birst í fjölmiðlum. Það er ekki bara landið sem hverfur undir fyrirhugað Hálslón sem er magnað, heldur líka þessi stórkostlegu gljúfur og fossar sem þagna þegar árnar verða stíflaðar.

oreafamovie.gifÉg fékk töluvert af tölvupósti þar sem fólk vildi vita hvernig sýningarnar voru unnar. Um var að ræða quicktime mynd með tónlist eftir Damien Rice og vefgallery ásamt myndatextum. Ég byrjaði á því að setja saman fyrstu drög af myndinni í Keynote. Það er skyggnuforrit líkt og Powerpoint, en nokkuð einfaldara og þægilegra í notkun. Það reyndist hins vegar erfitt að ná myndinni út (export) í góðum gæðum án þess að hún væri allt of þung fyrir Netið. Ég færði mig því yfir í iMovie HD sem gerði samsetninguna mun nákvæmari, enda klippiforrit þar sem auðveldara er að samstilla myndir og hljóð. Gæðin út úr iMovie eru ágæt, en fyrst og fremst hugsuð fyrir sjónvarp og aftur var ég í vandræðum með endanlega stærð á myndinni. Að lokum vann ég myndasýninguna í iPhoto. Þar er einfalt að búa til skyggnusýninar með tónlist. Myndgæðin voru mjög fín, en ekki er hægt að stilla nákvæmlega saman tónlist og myndir. Ég vissi hversu ört ég vildi láta myndirnar skipta á milli svo ég mældi einfaldlega lengd lagsins og áætlaði myndafjölda út frá því. Þess ber að geta að ég var ekki með nýjustu útgáfu af iLife pakkanum sem inniheldur öll þessi forrit fyrir utan Keynote.

Vefgalleryið er búið til í Photoshop CS2 með því einfaldlega að velja myndirnar í Adobe Bridge og svo er valið Tools>Photoshop>Web Gallery. Þar valdi ég Flash Gallery 1 og svo liti fyrir bakgrunna og texta. Myndatextarnir eru sóttir úr metadata úr myndunum sjálfum sem voru skráðar í Adobe Bridge og iView MediaPro. Myndatextar er oft vanmetnir á ljósmyndasýningum, sérstaklega á Netinu. Þeir sem hafa ekki skoðað vefgalleryið ættu því að kíkja á það ef þeir vilja fá aðeins meira kjöt á beinin hvað þessar myndir varðar. Til að fá myndatextann fram er nóg að færa bendilinn yfir myndina á skjánum hverju sinni.

webgallery1.gif
Velja myndir í Bridge og því næst er þetta valið…

webgallery2.gif
hér stillir maður svo texta, liti og fleira…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *