Menning, Kiss og Grændalur

polska.jpgHelgin var fín. Á laugardaginn skellti ég mér á ljósmyndasýninguna “POLSKA 1969-1989 – Pólland kommúnismans” í ljósmyndasafni Reykjavíkur. Myndirnar eru allar eftir Chris Niedenthal sem hefur starfað sem fréttaljósmyndari í áratugi, m.a. fyrir Newsweek, Time og Der Spiegel. Þetta er áhugaverð sýning í marga staði og frekar óvenjulegt að allar myndirnar eru í lit. Chris myndaði gjarnan á litpósitívar filmur og ólíkt flestum kollegum sínum þarna austantjalds notaði hann filmur frá hinum vestræna heimi – nefnilega Kodak. Fyrir vikið eru litirnir vel varðveittir og myndinar ekki með þessum austur evrópska blæ (gulnað og súrt) – en hann er út af því að litfilmurnar og pappír frá þessum tíma voru einfaldlega svo mikið lélegri. Ég og Árni félagi fórum með sitt hvorn soninn og litum út eins og svona Menningar-helgapabbar. Gaman að því. Ákváðum að fara alla leið og skella okkur í Hafnarhúsið og skoða Pakkhús Postulana. Ég ljósmyndaði fyrir Hrafnhildi Arnarsdóttur um daginn, en hún er einn af listamönnunum með verk á þessari sýningu. Verkið hennar á sýningunni er úr hári og hluti af því er sem sagt gert úr ljósmyndum af fléttum og hári. Ég komst ekki á opnunina og langaði mikið að sjá verkið. Mjög skemmtilega unnið – en það voru margar flottar innsetningar á sýningunni. Fannst bæði Helgi Þórsson og Ragnar Kjartans með sniðug verk.

kisscake.jpg

Svo á laugardagskvöldið fengum við Metalmaniac og frú í dýrindis speltlummur sem konan var búin að nostra við. Þau skötuhjú voru sein eins og venjulega – en var fyrirgefið þar sem Þrási var rétt á barmi þess að verða þrítugur. Þau stöldruðu við nógu lengi til að þeim merka áfanga var náð. Þráinn er einhver mesti Kiss áðdáandi sögunnar og því var þessi útgáfa af Betty Crocker á boðstólum.

Á sunnudaginn skelltum við Margrét okkur austur fyrir fjall í gönguferð um Grændal. Dalurinn er rétt fyrir ofan Hveragerði – einn af þessum stöðum sem er of nálægt til að maður hafi komið þangað. Veðrið var frábært, blankalogn og frekar hlýtt, sérstaklega miðað við að það var 1. október. Grændalur er hluti af eldstöð sem kennd er við Hengil og nær eldstöðin frá Hveragerði til Nesjavalla, vestur fyrir Hengil og suður í Hverahlíð. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, berggangar, brot og framhlaup.

Grændalur

Grændalur er einn af þeim stöðum sem sótt hefur verið um rannsóknarleyfi vegna nýtingu jarðorku. Sunnlensk Orka ehf fór fram á leyfi til þess að bora og leggja 3ja km langan veg um dalinn í tengslum við boranir árið 2001. Umhverfisráðuneytið gaf ekki leyfið, enda ljóst að vegur um þennan þrönga dal myndi einfaldlega eyðileggja hann. En dalurinn hefur ekki verið friðaður þrátt fyrir tillögu Umhverfisstofnunar frá árinu 2003.

Hér má skoða fleiri myndir úr Grændal frá því á sunnudaginn.

8 thoughts

 1. SEIN?! Við mættum kl. 19:04 – á hefðbundnum matartíma Íslendinga!
  Lummurnar voru góðar og KIZZ-kakan rokkaði 🙂
  Þið eruð góð heim að sækja…

 2. Hæ hó.
  Nýr notandi hér á síðunni hjá þér. En gaman að fylgjast með þér gamle ven. Snilldar myndir að venju. SSSjááumst.

  kv
  FELIX

 3. Haha, þegar ég segi fólki að koma í mat klukkan 18:00 þá þýðir það að það á að koma með salat eða eftirrétt, og hjálpa mér að elda. 😀

  Annars er Grændalur ótrúlegur, alltof langt síðan ég fór síðast þangað.

 4. Ég mæti nú bara á matartíma samkvæmt gömlum Íslenskum sveitasið, þegar búið er að gera þau verk sem þarf að gera… úti… í sveitinni…

  Takk fyrir ölið og kökuna góðu, brilljant að fá KISS ammlisköku!!

  Takk ljósin mín og hafið tímasetningarnar á hreinu næst…

  Ps. Bananar og kókos rúlar á Norskar spelt lummur!!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *