Keila og Yoko Ono going Loco

keila1.jpg

Ég fór með Arndísi dóttur minni og öðrum bekk ÞJ í keilu í Öskjuhlíðinni í dag. Rosastuð og greinilega vinsælt að koma með hópa af börnum þangað. Ég væri til í að vita hvaða undraviður er notaður í keilubrautir. Maður lifandi – höggin sem þessi gólf þurfa að þola! Krakkarnir eiga ekki gott með að nota þessar þungu kúlur. Sumir hafa því svona kast-stíl þar sem tekið er tilhlaup og kúlunni kastað áfram á brautina. Ég beið eftir því að þær myndu gera gat í brautina. Það eru ekki til keiluskór til fyrir svona litla fætur svo börnin voru skólaus og sum berfætt. Það munaði oft mjóu þegar þau misstu keilukúlurnar á gólfið – rétt við tærnar á sér.

keila2.jpg

keila3.jpg

Krakkarnir lifa sig mikið inn í keiluna og það var rosa gaman að fylgjast með þeim. Spennuna mátti lesa úr andlitunum þegar kúlurnar rúlluðu niður brautina. Arndís tók sig til og vann keppnina, náði 110 stigum. Ég held að það sé bara svipað skor og ég næ yfirleitt í keilu!

onoloco.jpgNú er svo komið að Yoko Ono going Loco hlutanum. Ég horfði á viðtal sem Helgi Seljan átti við hana í kvöld í tengslum við þessa stórmerkilegu friðarsúlu sem á að reisa í Viðey. Það var ákveðin kaldhæðni í því að í þessum sama fréttatíma var sagt frá því að það er talið að 650 þúsund Írakar hafi fallið síðan innrás Bandaríkjanna hófst. Ég leyfi mér að stórefast um það að svo margir hefðu látið lífið á þessum tíma ef Saddam hefði enn verið við völd. Þetta er ný helför og ekkert annað. Meira en þrefaldur fjöldi Íslendinga hefur fallið. Og við berum hluta af ábyrgðinni á þessu mannfalli þökk sé ríkisstjórn sem vildi ólm vera í “hópi hinna staðföstu þjóða”. Ætti frekar að kalla það “hóp hinna undirgefnu þjóða”.

En Yoko finnst svo gráupplagt að láta reisa friðarsúluna á Íslandi. Hvers vegna? Síðan hvenær er Ísland þekkt fyrir að vera friðarríki? Við erum sauðmeinlaus auðvitað, en eina ástæðan fyrir því að við erum ekki með okkar eigin her er sú að við erum örríki sem stendur einfaldlega ekki undir slíkum glórulausum rekstri.

Svo finnst Yoko líka mikilvægt að koma Íslandi betur á kortið því að hér væri borin svo mikil virðing fyrir náttúrunni. Hún sagði að líkt og í hennar heimalandi Japan, væri e-h innbyggð virðing fyrir náttúru hér á landi. Já, einmitt! Helgi spurði hvort hún vissi af Kárahnjúkavirkjun eða “The Dam up East” eins og hann orðaði það svo skemmtilega. Nei, hún lét það nú ekki fipa sig neitt í kjaftæðinu. Á myndinni má sjá Yoko í brjáluðu friðarstuði á meðan að hálslöng kanína fylgist með.

Að lokum hér snilldarljóð eftir Davíð Þór Jónsson:

Friðarsúlan
Að allir þrái alheimsfrið
er engin tímaskekkja.
En hvernig er að vinna við
að vera ekkja?

4 thoughts

  1. Mér finnst þessi mynd af ekkjunni vera dálítið dónaleg. En kannski er það bara ég og minn hugsunarháttur.
    Dóttir þín er í 2 ÞS.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *