Tíminn líður hratt

…þegar nóg er að gera og því löngu kominn tími á færslu hérna. Auðvitað er gott að hafa nóg að gera þegar maður starfar sjálfstætt. En maður þarf að passa jafnvægið. Það getur verið snúið fyrir svona trommuheila eins og mig sem starfar við áhugamálið. Í gær tók ég nóg af myndum alla vega. Fór með Hlyn og Jóa út á Reykjanes að taka út nokkur svæði sem eru í hættu. Svæði sem nánast barist er um að fá rannsóknarleyfi fyrir.

krysuvik1.jpg
Jói að taka yfirlitsmynd yfir Seltún, gufa frá Austurengjum í baksýn.

krysuvik2.jpg
Hlynur fjallageit tekur yfitlitsmyndir af Seltúni

Við ætluðum okkur að taka svaka rúnt, en náðum ekki að komast yfir meira en Seltún og Austurengjar. Þessir staðir tilheyra Krýsuvíkursvæðinu. Við gengum nú ekkert ofboðslega langt. Það var ekki út af leti. Svæðið er svo magnað að maður kemst eiginlega ekkert áfram. Myndefnið er út um allt og maður á fullt í fangi með að vinna úr því með toppstykkinu. Svo safnast límkenndur leirinn við jarðhitasvæðið undir skóna svo þeir verða þungir eins og kafaraskór!

krysuvik4.jpg

austurengjar.jpg

Það var gaman að fara í ferð með öðrum að ljósmynda. Hef gert allt of lítið af því. Enn og aftur var þyrla að sveima yfir mér við tökur. Jón Spaði birtist allt í einu á Long Rangernum. Skondið, því ég var nýbúinn að hugsa til hans og þyrlunnar því birtan var svo falleg í gær. En ég hugsaði með mér að það væri allt of hvasst fyrir þyrluna. Ég var því frekar hissa þegar þeir birtust. Þeir settust við Seltún og ég fór og tékkaði á því hver væri á ferð með honum. Hann var að fljúga með e-h Breta sem voru að kvikmynda landið okkar. Ég sagði honum að við ætluðum að Austurengjum, en við vorum búnir að fylgjast með þeim fljúga þar um. Til að komast að Austurengjum þurftum við að ganga nokkurn spöl yfir mýri. Það passaði að þegar við vorum komnir þangað eftir um 20 mínútna göngu birtust þeir á þyrlunni og fengu sjálfsagt mjög fín skot af rjúkandi hvernum og okkur við hann í gufunni. Það er frekar mikið rokk að hafa þyrlu sveimandi lágt yfir sér. Þyrlur eru bara svo mögnuð farartæki. Ég fæ alltaf fiðring í magann nálægt þeim.

ballet1.jpg
Arndís í ballettíma, hún er önnur frá hægri.

Eftir vel heppnaðan dag á Reykjanesi brunaði ég svo í Mjóddina til að fá að fylgjast með ballettíma hjá Arndísi dóttur minni. Hún er mjög efnileg þó ég segi sjálfur frá. Einbeitingin skín líka úr andlitinu þegar hún dansar. Það er mikill metnaður hjá skólastjóranum Guðbjörgu sem kennir þeim. Ég vona að Arndís missi ekki áhugann. Dans er öflugt tjáningarform og kennir aga sem nýtist í svo mörgu öðru. Svo eru dansarar líka svo tignarlegir. Fólk sem ber líkamann á svo fallegan hátt. Það er engin tilviljun að frægir ljósmyndarar hafa ljósmyndað dansara mikið…

ballet2.jpg

2 thoughts

  1. Arndís minnir á fislétta móðursystur sína á þessum myndum 🙂
    Gaman að sjá þegar hæfileikar manns erfast svona á ská…

  2. Ég var farin að halda að það hafi orðið skipti á fæðingardeildinni!!! Gott að Bengó þekkir til hæfileikanna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *