Vel heppnað haustþing

framtidarland_haustthing.gifÉg tók þátt í haustþingi Framtíðarlandsins í dag á Nordica Hotel. Óhætt að segja að það hafi heppnast vel; bæði góð mæting og stemning. Andri Snær startaði þessu með látum, keyrði fyrirlesturinn sinn hratt en markvisst áfram og sýndi hvert við Íslendingar stefnum varðandi stóriðjumál. Stóriðjustefnunni er langt frá því lokið, þrátt fyrir að stjórnvöldi vilji gjarnan að almenningur haldi annað. Andri hefur skemmtilegan ræðustíl sem er frekar frjálslegur, en þannig nær hann góðri tengingu við salinn. Gunnar Hersveinn fylgdi honum eftir, en Gunnar fjallaði um gildin sem Framtíðarlandið hefur að leiðarljósi. Annars voru ræðumenn úr ýmsum áttum sem endurspegluðu þau málefni sem Framtíðarlandið telur brýnt að skoða. Rögnvaldur Sæmundsson fjallaði um nýsköpun og frumkvöðla, Margrét Vilhjálmsdóttir og Sólveig Arnarsdóttir um mikilvægi menningar og lista, Sigríður Þorgeirsdóttir um menntun, Ragnar Freyr Ingvarson um heilbrigðismál, Anna Sigríður Ólafsdóttir um matvælamál, Yngvi Kristinsson hagfræðingur fræddi okkur um ástæður þeirrar fjármálasprengju sem orðið hefur á Íslandi, Ósk Vilhjálmsdóttir um alla möguleikana sem bíða í ferðaþjónustu, Sverrir Björnsson um ímynd lands og þjóðar, Þóra Ellen Þórhallsdóttir um sérstæði náttúru okkar og Guðmundur Páll Ólafson kynnti hugmyndir sínar um Íslandsgarða. Að fyrirlestrum loknum voru pallborðsumræður með þeim Baltasar Kormáki, Eddu Rós Karlsdóttur og Skúla Skúlasyni undir styrkri stjórn Hjálmars Sveinssonar útvarpsmanns. Þrátt fyrir að ólíkt sjónarhorn voru þau sammála um að það væru margir möguleikar í stöðunni aðrir en stóriðja.

Þetta var þarft og gott þing. Ég er bjartsýnni á framtíðina eftir að hafa eytt heilum degi með fólki sem deilir þeirri skoðun með mér að nú sé komið að því að gera róttækar breytingar á áherslum þjóðarinnar varðandi efnahags- og menntamál. Ef þú ert sama sinnis skora ég á þig að skrá þig í Framtíðarlandið.

2 thoughts

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *