Pólland 1. hluti

Við lögðum af stað snemma morguns eða öllu heldur um nóttina 2. nóvember. Þrátt fyrir að rífa sig upp svona eldsnemma komum við síðust til að tékka inn í flugið. Það þýddi að við fengum öftustu sætin í vélinni. Það er ekki gott. Konan er frekar flughrædd og þarna aftast verða allar hreyfingar í ókyrrð miklu öflugri. Svo er náttúrulega plássið ekkert. Það er ekki bara að það sé ekki hægt að halla sætunum, heldur er líka mun styttra í röðina fyrir framan mann. Svo þegar farþegarnir þar ákváðu að halla sínum sætum fékk maður flösuhausana nánast í fésið! Okkur til “ánægju” tilkynntu fararstjórarnir að við ættum að passa spjöldin okkar vel, því að öllum líkindum yrðu við í sömu sætum á heimferð. Vei, einmitt það sem við vorum að vona – NOT! Eini ljósi punkturinn við að sitja þarna var að ég gat náð þessari mynd.

wing.jpg

Það snjóaði þegar við komum til Kraká og svona veður átti eftir að vera mest allan tímann. Hitastigið rétt undir frostmarki og smá snjómugga í lofti. Við vorum svona mátulega undir það búin, sumir betur en aðrir – en Árni var gríðarlega fagmannlega undirbúinn með ullarnærfötin og allt!

snowy.jpg

Helgina áður en við komum hafði verið 23 stiga hiti svo hitasveiflurnar eru greinilega ekkert minni í Póllandi en hér á Fróni nema síður sé. Við skelltum okkur í gönguferð, en hótelið lá skammt frá torginu fína og allt í göngufæri, líka verslunarmiðstöðin og gyðingahverfið. Við gistum annars á Radisson SAS sem var prýðilegt. Alltaf finnst manni jafn skemmtilegt að skreppa frá yfir daginn og koma “heim” til að finna herbergið í óaðfinnanlegu ástandi. Djöfull væri fínt að hafa þetta svona heima líka! Þennan fyrsta dag notuðum við til að kynnast borginni og eitthvað gátum við nú verslað líka. Fengum okkur að snæða lakasta matinn sem við áttum eftir að borða í allri ferðinni – sem var samt mjög fínn. Fjórar pizzur og átta stórir bjórar á 2000 kall minnir mig. Þetta samsvarar svona tveimur Latte og kleinum hér.

fiat_snow.jpg

Það var minna um svona skrjóði eins og hér að ofan en ég átti von á. Einhvern veginn hélt ég að það væri mun meira af Lödu og Trabant. Það er náttúrulega svo langt síðan að múrinn féll og allt það og augljóslega töluverður uppgangur í Póllandi.

kraka.jpg

Í borginni eru sporvagnar mikið notaðir og í hvert sinn sem maður sér þennan farkost hugsar maður tvennt: a) Palli var einn í heiminum og b) af hverju eru ekki sporvagnakerfi í Reykjavík? Nóg er til að rafmagninu og lagning teina fyrir sporvagna getur ekki verið svo flókið mál fyrir alla gröfukarlana sem eru hvort sem er alltaf að grafa í sundur göturnar?

sporvagn.jpg

4 thoughts

  1. Nei, því miður. Ég drakk það allt! Verslaði hins vegar gylltan Tuborg í fríhöfninni sem ég býð þér gjarnan ef þú kemur í heimsókn.

  2. Hann kostaði ekki nema 500 pln en ég varð að skilja hann eftir þar sem hann passaði hvorki undir sætið né í overhead bin.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *