Myndvinnsla, matarboð og handbolti

Nóg um að vera um helgina. Ég var með photoshop námskeið niður á Hverfisgötu. Blaðrað um photoshop, camera raw og ljósmyndun í tvo daga samfellt. Ég var búinn að hita svolítið upp þar sem ég kenndi fyrsta tímann minn í Listaháskólanum á föstudaginn var. Dóra Ísleifs plataði mig í að taka að mér þennan myndvinnslu/ljósmyndunarkúrs. Svona kennsla er ekkert brjálæðislega vel borguð, en á móti kemur að maður lærir líkast til aldrei meira sjálfur en þegar maður er að kenna. Ágætt að taka svona kennslutarnir annað slagið, skerpir á skipulagshæfileikunum og svona.

matarbod.jpg

Hlynur og Guðrún buðu okkur í mat á laugardalskvöldið. Dýrindis lambalæri með öllu tilheyrandi og með þeirri bestu sósu sem ég hef bragðað í langan tíma. Fæ vatn í munninn þegar ég hugsa um það. Krakkarnir okkar léku sér vel saman og Sindri Benedikt og Ari Carl voru sérstaklega hressir. Ekki síst þegar þessi forláta drekabúningur var tekinn fram. Skiptust á að hlaupa um og garga eins og sönnum drekum sæmir.

ari_dreki.jpg

Sindri fór líka í pólska iðnaðaramannagervið, sem er reyndar frekar einfaldur og látlaus búningur, samanstendur af yfirvaraskeggi og hnésokkum.

ari_sindri.jpg

Eftir að námskeiðinu lauk hjá mér á sunnudaginn brunaði ég í Víkina að fylgjast með Bjargey og stelpunum í Fylki rústa hverjum andstæðingnum á fætur öðrum á vinamóti Víkings í handbolta. Hingað til hafa mótin hjá þeim verið frekar kaflaskipt en í þetta sinn unnu þær alla leikina nokkuð sannfærandi. Bjargey sýndi góð tilþrif og skoraði nokkur mörk, m.a. það sem er í fæðingu á myndinni hér fyrir neðan.

bjargey_hanbolti.jpg

Heilt yfir hafði stelpunum í liðinu farið mikið fram. Nú voru fleiri óhræddar við að taka af skarið og skjóta á markið! Mótið var reyndar fáranlega langt, síðasti leikurinn var leikinn löngu eftir klukkan átta um kvöldið. Svolítið langur dagur fyrir níu ára handboltaskvísur, enda var Bjargey gjörsamlega rotuð í morgun þegar ég reyndi að vekja hana í skólann. Hér er vefgallery með fleiri myndum frá mótinu.

One thought

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *