Pólland 2. hluti

fruits.jpg

Jæja, þá meira frá Kraká og Póllandi. Á föstudeginum var farið í verslunarleiðangur. Fararstjórinn hafði sagt okkur frá því á leiðinni frá flugvellinum að það væri glæný verslunarmiðstöð við hliðina á járnbrautarstöðinni. Hann var reyndar veeeeeerulega lengi að koma út úr sér orðunum og ég held að hann hafi kannski klárað svona þrjár setningar á þeim hálftíma sem það tók að aka frá flugvellinu á hótelið, sem er um hálftíma akstur. Hann talaði með nettum hreim, sagði t.d. Raddizzon zaz í staðinn fyrir Radisson sas. Hefur líkast til dvalið aðeins of lengi í landinu sem öll orð virðast byrja á bókstöfunum z eða w.

krakow_market.jpg

Á leiðinni í verslunarmiðstöðina kíktum við á markaðinn, versluðum eitthvað svona hand-made dót eins og babúskur og fengum okkur kaffi með prins póló. Það eru til endalausar tegundir af prins póló í Póllandi auðvitað. Prins úr hvítu súkkulaði og með kókos var nú reyndar það eina sem ég prófaði fyrir utan þetta klassíska. Það var bara fínt. Minnti helst á okkar indæla og íslenska kókosbar.

coffee_collage.jpg

Þegar í verslunarmiðstöðina var komið var fljótlega allur vindur úr okkur Árna og við neyddumst til að fá okkur bjór og bíða eftir að æðið rynni af konunum. Merkilegt hvað svona verslanir sjúga úr manni allan kraft.

saltnama2.jpg

Á laugardeginum var haldið í merkar saltnámur í bænum Wieliczka, en námur þessar hafa verið notaðar í um 900 ár. Á miðöldum var verðmæti salts mikið og því grófu menn gríðarlega hella og göng til að vinna saltið úr berginu. Orðið salary er komið af salti, en menn fengu oft greitt í salti en ekki peningum á þessum tíma. Í heildina eru göngin um 200 km löng og á níu hæðum. Allt sem þið sjáið á myndinni hér að ofan er úr saltberginu, líka hellurnar í gólfinu!
saltmine_collage.jpg

Verkamennirnir sem unnu í námunum voru trúaðir og bjuggu til kapellur, helgimyndir og styttur úr saltberginu. Úr saltinu voru líka búnar til ljósakrónur þar sem saltkristallar koma í stað kristals. Ferðamenn sem heimsækja námurnar fara mest á um 160 metra dýpi og ferðamannarúnturinn er ekki nema um 2 km langur eða um 1% af heildarlengd gangnanna. Þetta eina prósent er hins vegar mjög tilkomumikið og þarna eru risastórir salir þar sem hægt er að halda allt að 4-500 manna veislur. Það ku vera vinsælt að halda brúðkaup þarna neðanjarðar. Kannski ekki svo sniðugt ef e-h gestanna þjáist af innilokunarkennd!

last_supper.jpg
Síðasta kvöldmáltíðin höggin í saltberg, myndin er aðeins 16 cm djúp.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *