Pólland 3. hluti

Þá er komið að því að klára ferðasöguna frá Póllandsferðinni. Sunnudeginum höfðum við kviðið svolítið því þá var förinn haldið til Auschwitz – Birkenau. Það var slagveðursrigning og kuldi þennan dag sem gerði upplifunina kannski enn sterkari. Maður getur þannig betur myndað sér hvernig það hefur verið að dvelja í þessum alræmdu búðum að vetri til í enn meiri kulda. Annars er eiginlega vonlaust að ætla sér að skrifa eitthvað af viti um þennan stað. Þetta er bara eitthvað sem helst allir þurfa að sjá og upplifa. Upplifunin á þessari heimsókn skilar sér lengi eftir að heim er komið.

auschwitz-1.jpg

Hér að ofan má sjá yfirlitsmynd yfir Birkenau búðirnar. Hús þessi eru í raun hesthús sem hvorki halda vatni né vindi almennilega. Í hverju svona húsi sváfu nokkur hundruð fangar, en þau voru ætluð karlföngum eingöngu – og einungis þeim sem voru nógu hraustir til að vinna í e-h mánuði áður en þeir færu í gasklefana.

auschwitz-2.jpg

Þetta eru kojurnar sem mennirnir sváfu í margir í hverju fleti, líkast til 3-4 á hverri hæð í kojum á þremur hæðum. Hús kvenfanga voru betur byggð, hlaðin úr múrsteinum þeirra húsa sem voru jöfnuð við jörðu í bæjunum í kring þegar Nasistarnir hertóku svæðið. Engu að síður er talið að vist kvenna hafi síst verið skárri en karla. Í búðunum dóu mikið af börnum og kannski einhver þeirra í þessu fleti sem sést á myndinni hér að neðan. Þessi mynd er innan úr húsi sem var greinilega mikið af börnum, því þar voru tréstigar við kojurnar sem voru ekki í öðrum húsum. Ennfremur var búið að teikna myndir af borgarlífi á veggina isem er vitnisburður þess að konurnar hafi reynt að gera eitthvað smáræði til að gleðja eða fræða börn sín.

auschwitz-3.jpg

Það eru einmitt börnin sem maður hugsar hvað mest til þegar maður reynir að ímynda sér hvernig það hefur verið að lenda í helförinni. Þegar við vorum búin að ganga um svæðið sáum við gamla kvikmynd sem sýndi raunverulegar myndir af því þegar bandamenn frelsuðu búðirnar. Ein af áhrifamestu senunum er þegar hópur barna, mest allt tvíburar, gengu þennan vírgirta stíg (sem sést hér á myndinni fyrir neðan) í fylgd kvenna til frelsis. Dr. Josef Mengele hafði sérstakan áhuga á því að gera tilraunir á tvíburum og því sluppu tvíburar við gasklefana, sem eftir á að hyggja var kannski skárri kostur.

auschwitz-4.jpg

One thought

  1. Þetta eru góðar myndir svili minn kæri, búðirnar eru ótrúlegt minnismerki um fáránlega tíma í mannkynssögunni. Maður verður líklega ekki heill fyrr en maður heimsækir þennan stað.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *