Myndabankar í vanda

arnarstapi.jpg
Á Arnarstapa, 19. júlí 2005

Ég var að lesa áhugaverða grein Í PDN. Myndabankarnir stóru eiga undir högg að sækja. Það er margt sem spilar þar inn í en helstu ástæðurnar eru sagðar þessar:

 • Hratt minnkandi umsvif prentmiðla
 • Offramboð á myndefni
 • Ofur-ódýrar myndir til sölu í öðrum myndabönkum
 • Google Images og Flickr
 • Flókið ferli fyrir kaupendur og seljendur.

Í BNA dregst prentmarkaðurinn saman á meðan að sala auglýsinga á Interneti eykst um tæp 25 prósent á milli ára. Netið krefst ekki sömu gæða á myndefni. Ennfremur er ákveðið “trend” í auglýsingum á Netinu í dag, en það eru auglýsingar líkt og Google Ads sem eru eingöngu textauglýsingar sem tengast efninu sem skoðað er. Ekki góðar fréttir fyrir ljósmyndara.

Það hefur orðið alger sprenging í ljósmyndun á heimsvísu. Nánast allir virðast eiga stafræna myndavél og ófáir eiga góðar D-SLR vélar sem skila stórfínum gæðum. Allir eru á fullu að ljósmynda, þar sem það er mun einfaldara og ódýrara en áður. Þetta hefur skapað alveg nýjan hóp ljósmyndara sem margir selja myndefnið í myndabanka eins og iStockPhoto og Shutterstock. Þetta gríðarlega aukna framboð keyrir eðlilega verðin niður í heildina, sem er ekki heldur góðar fréttir fyrir ljósmyndara.

Hjá iStockPhoto getur þú keypt mynd til afnota í upplausninni 800×600 fyrir 1 USD. Hæsta verðið hjá þeim eru heilir 40 USD og það er fyrir nógu stóra skrá til að prenta sem opnu í tímariti. Það furðulega er að enn skuli seljast myndir fyrir fleiri hundruð og jafnvel þúsundir dollara í stóru bönkunum. Menn spá því að kaupendur séu einfaldalega ekki búnir að uppgvöta að þeir fá alveg jafn góðar handsals-, ljósaperu- og sparigrísamyndir hjá royalty-free bönkunum fyrir brot af verðinu. Stóru bankarnir vita að þeir eru ekki með neitt sérstak forskot ljósmyndalega séð á þessu sviði. Þeir hafa sumir keypt svona micropayment banka eins og þeir eru kallaðir, þar á meðal Getty.

Ef þú finnur ekki myndina sem þú leitar að í myndabönkunum eru Google Images og Flickr staðir sem hægt er að finna myndefni í milljónatali. Það getur jafnvel gert betri kaup þar sem þú skiptir beint við myndhöfundinn og hann eða hún hafa kannski ekki hugmynd um hvers virði myndefnið þeirra er.

Að kaupa myndir af stóru myndabönkunum getur verið flókið ferli. Þeir samanstanda flestir af mörgum minni bönkum sem allir þurfa að fá sinn skerf. Verðlistinn er því oft fáranlega flókinn. Það getur að sama skapi verið flókið fyrir ljósmyndara að skipta við bankana. Ég þekki dæmi þess að íslenskir ljósmyndarar selji myndir í gegnum erlenda banka og fá svo lítið sem kannski 10 USD af rúmlega 100 USD sölu. Ástæðan er sú að milliliðirnir eru svo margir.

2 thoughts

 1. spurning hvernig verður hjá okkar íslenska nordicphotos sem eru sjálfsagt vel skuldsettir eftir öll myndabankakaupin

  En vonandi verður þessi kreppa til þess að bankarnir fari að vanda myndaritstjórnina og hætti að hrúga inn ógrynni rusli líkt hefur gerst hjá np

  hilsen

  Benni

 2. Hef líka heyrt að það sé vesen og taki langan tíma að fá greitt fyrir myndir, taki jafnvel 6 mánuði.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *