Skíðastubbur

skidi_ari.jpg
Skíðastubbur á ferð, 14. janúar 2007.

Þá kom loks að því að yngsti fjölskyldumeðlimurinn prófaði að stíga á skíði. Ekki seinna vænna þar sem stórfjölskyldan ætlar að halda upp á sjötugsafmælið hans pabba á Geilo í Noregi í lok febrúar. Ártúnsbrekkan var þétt skipuð á sunnudaginn. Það er ekki búið að opna stóru skíðasvæðin ennþá og eflaust margir nýbúinir að fá skíði eða bretti sem er auðvitað nauðsynlegt að prófa. Ari Carl var bara nokkuð brattur, þó að hann hafi nú ekki náð að renna mjög marga metra án þess að detta á hausinn! Við feðgarnir fórum meira að segja upp með toglyftunni saman og það fannst mínu manni sko alvöru. En Ártúnsbrekkan er eiginlega of brött fyrir svona algera byrjendur. Við prófuðum því frekar að láta hann renna sjálfur niður mjög stutta og aflíðandi brekku. Hann var bara nokkuð duglegur við það. Hefði gengið enn betur ef Ari hefði ekki verið svona upptekinn við að borða snjó!

sledaferd.jpg
Frændur á fullri ferð, 14. janúar 2007.

Svo kom Eliot frændi með nýja stýrissleðann sinn og þá hófst sko stuðið. Þeir brunuðu niður ferð eftir ferð og fólk þurfti nokkrum sinnum að forða sér frá þessum litlu brjálæðingum. Eliot tók yfirleitt skarpa beygju í lok ferðar og við það þeyttist Ari af með fésið á kaf í snjóinn. Það fannst honum bara stuð. Þetta var skemmtileg upphitun fyrir skíðatímabilið. Nú er bara að leggjast á bæn og vona að það bætist meiri snjór í Bláfjöllin. Ég er meira að segja búinn að græja skíðagrind á Land Roverinn!

3 thoughts

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *