Flöktandi grasekkill

svartifoss.jpg
Svartifoss í Skaftafelli. Hasselblad 503CW, 50mm og Fuji Velvia.

Búið að vera frekar rólegt hér á blogginu. Biðst velvirðingar á því. En það er ekki vegna gríðarlega anna við heimilishald eins og flestir halda, þó svo að það sé ærið verkefni að hugsa um þrjú börn og koma í veg fyrir að heilbrigðiseftirlitið setji farbann á þau. Síðan ástkær eiginkonan hélt í verslunarvíking til Nýju Jórvíkur hef ég verið óvenju aktívur (annars staðar en hér altså). Veit ekki hvort hún sé svona mikil orkusuga eða hvort þetta hafi bara verið tilviljun?

Ég byrjaði loksins aftur að stunda jóga, en ég skráði mig fyrir nokkru á lokað 12 vikna námskeið hjá hinum ágæta Guðjóni Bergmann. Innifalið í námskeiðinu var hugleiðslunámskeið sem ég tók þátt í vikunni og var afar áhugavert. Það er magnað hvað svona ástundun sýnir manni hvar maður stendur. Jógað kemur strax upp um vöðvabólguna í öxlunum, en vindur fljótt ofan af henni sem er auðvitað gott. Hugleiðslan kemur svo upp um áreitið og ókyrrðina í hausnum á manni. Það er meira en að segja það að hugleiða. En ég er staðráðinn í að tileinka mér það.

Ofan á þessa líkams- og hugrækt hef ég svo náð að vinna svolítið líka! Ég meira að segja drullaðist loksins til að skoða hið magnaða myndafyrirbrigði Flickr. Ég stofnaði svæði þar fyrir löngu en hafði ekki gefið mér tíma í að skoða virknina neitt af viti. Nú eru komnar örfáar myndir inn og ég er búinn að eignast tengiliði eða “contacts” og deili svo myndum með hópum eða “groups” sem eru ófáar. Ég hef tekið þá straketísku ákvörðun að setja bara inn analog myndir eða s.s. myndir teknar á filmu. Þannig ætla ég mér að búa til meiri pressu á sjálfan mig varðandi það að skanna meira úr filmusafninu mínu og eins að taka áfram alla vega eitthvað á filmu. Ég hef sáralítið tekið á filmu síðan ég fékk Canon EOS 1Ds Mark II vélina. Á meðan ég var með fyrstu kynslóð af 1Ds skaut ég helling á filmu, sérstaklega arkitektúrinn. Það er ekki síst ferningsformið frá Hasselblad sem ég sakna.

Ég heiti trommuheili á Flickr. Breyti því víst ekki héðan af. Komst reyndar að því í hugleiðslunni að þetta gælunafn er ekki eins vitlaust og það hljómar. Ég er óttalegur trommuheili.

3 thoughts

  1. Ég held að Trommuheili sé betra en Kaffihommi.
    Gaman að sjá “Borgvold” myndina á Flickr, hún er í miklu uppáhaldi hjá mér.

  2. Sammála Árna með Borgvold myndina,
    ég get ekki séð neitt að því að hún halli aðeins ég er ekki viss um að hún myndi virka ef hún gerði það ekki

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *