Lightroom tilbúið

lightroom_boxshot_left.jpgÞá hefur Adobe kynnt endanlega útgáfu af Adobe Photoshop Lightroom, sem kemur í búðir í USA þann 19. febrúar. Beturnar af Lightroom renna út þann 28. febrúar. Það eru margir spenntir að komast að því hvort endanlega útgáfan verði hraðvirkari en beturnar hafa verið. Jafnvel á nýjustu ofurvélunum hafa menn verið að kvarta yfir hægagangi. Um leið og tökurnar eru orðnar margar í forritinu hefur hægt töluvert á öllu og Lightroom hefur verið svo gott sem ónothæft á eldri vélum, hvað þá single processor G4 vélum. Ég hef notað beta 4 heilmikið, sérstaklega til að vinna úr studiotökum og brúðkaupum. Hraðinn mætti alveg vera betri en forritið hefur alveg verið nothæft á Dual G5 2.7GHz með nóg af vinnsluminni. Ég er mjög hrifinn af vinnuflæðinu og ég vinn hraðar og meira markvisst með stillingar á Raw í Lightroom en í Photoshop/Bridge. Talandi um Bridge, nýja betan (v.2) af Bridge CS3 hefur verið að gera mér lífið leitt. Þegar ég hef unnið í myndum og vistað opnast þær ekki lengur við að tvísmella á þær í Bridge. Furðulegur andsk… Væri gaman að heyra ef fleiri hafi prófað þessa betu.

Lightroom verður á kynningarverði á 199 USD til að byrja með, sem verður að teljast nokkuð gott verð. Fullt verð er uppgefið 299 USD. Ég hef verslað hugbúnaðinn minn undanfarið á amazon.co.uk eða bhphoto, en það er ekki hægt að kaupa á síðunni hjá Adobe ef maður er búsettur hér á landi. En það er spurning hvort Lightroom fari strax á Amazon? Annars var ég að gera mér von um að fá eintak frítt þar sem okkur Geira var nú boðið í þetta Lightroom Adventure í sumar.

Annars er búið að vera brjálað að gera í janúar; sérstaklega í skönnun og myndvinnslu. Nú síðast var ég að vinna myndir í tengslum við Sjónþing og yfirlitssýningu Rúríar sem opnar á laugardaginn í Gerðubergi. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Rúrí, enda verkin hennar mögnuð og vönduð í alla staði. Ég fékk þann heiður að sjá um stækkanir fyrir hana í verkið Archive Endagered Waters á sínum tíma. Þar sýndi hún stórar Duratrans myndir af fossum og flúðum, sem voru samlokaðar í gler og settar upp í stórum sérsmíðuðum álskáp þar sem hægt var að draga út hvern foss fyrir sig. Um leið og maður gerði það hljómuðu drunurnar í vatninu, en Rúrí hafði ennfremur gert hljóðupptökur af öllum fallvötnunum. Hrikalega flott verk. Fyrr í mánuðnum sá ég svo um prentun fyrir Kristinn E. Hrafnsson, en hann sýnir skemmtileg verk í i8. Myndirnar á sýningunni prentaði ég á Hahnemuhle grafíkpappír sem hann kom sjálfur með. Þetta var ekki sérstakur bleksprautupappír en útkoman var mjög fín. Ég gerði nokkrar tilraunir og fann út bestu uppsetninguna á 9800 prentaranum. Þessi prentari er snilld að því leyti að ég get sett í hann arkir af hverju sem er og þær þurfa ekki að vera í sérstakri stærð eða nákvæmt skornar. Það er m.a.s hægt að prenta beint á karton í honum.

One thought

  1. Mér skilst að Lightroom eigi að koma einhverjum 5-6 dögum eftir útgáfu hjá Adobe á Amazon.com. Það er a.m.k. sá tími sem ég fékk þegar ég pantaði Lightroom af síðunni hjá þeim á þriðjudaginn. Maður fær þetta því líklega í hendurnar í kringum mánaðarmótin feb/mars.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *