Heja Norge 2

geilopusl.jpg

Það hafði bæst í snjóinn þegar við vöknuðum fyrsta daginn okkar á Geilo. Ari Carl var ekkert rosalega ferskur enda fórum við með pjakkinn hálf veikan út. Meira að segja stuðið í Bubba byggir púslinu fór fljótt. Við morgunverðarborðið komu fyrstu áhyggjurnar af “brekkunni” fram, en hún hefur oft reynst bílunum erfið ef það er mikill snjór. Ætli það sé ekki réttara að segja að hún hafi reynst bílstjórunum erfið. Brekka þessi (sem er frekar meinlaus) liggur sem sagt frá Hyttunni upp á aðalveginn. Og það kom á daginn. Systir mín bakkaði svolítið of mikið til hægri og þar sat þessi fíni Opel Vectra Station pikkfastur. Ég var búinn að aka upp á okkar bíl, en við vorum á Skoda Octavia TDi. Að sjálfsögðu tókst mér að komast án vandræða upp! Við reyndum að ýta druslinni en ekkert gekk og að lokum fengum við aðstoð frá lokal gröfukarli. Hann var orginal. Eftir þetta ævintýri ákváðum við að setja hurtig-kjettinger undir bílana (keðjur sem sagt, en ekki hraðskreiða kéttlinga). Frá og með þeirri stund vorum við þekkt í Geilo sem “keðjufólkið”, því keðjukvikindin voru ekki mjög samvinnuþýðar í ásetningu og því langt frá því að vera vel fastar. Fyrir vikið skullu þær með þvílíkum látum við felgurnar. Þegar við ókum um bæinn var eins og hestavagnalest væri á ferð.

geiloski1.jpg

Næstu daga var svo skíðað eins og okkur væri borgað fyrir það. Aðstæðurnar fyrir fjölskyldufólk eru mjög góðar á Geilo með fjölmörgum barna- og byrjendasvæðum. Þar eru rólegar toglyftur eða jafnvel lítil færibönd sem ferja púkana hægt en öruggt á áfangastað. Því náðu litlur guttarnir töluverðum framförum og ekki síst Eliot sem er nýorðinn 4 ára. Hann var farinn að skíða alveg sjálfur í lok ferðar. Frænkurnar, sem eru á aldrinum 7-9 ára, ásamt stóra frænda sem er nýorðinn 13, fundu sér líka brekkur við hæfi og ekki skemmdi fyrir að víðs vegar var hægt að skíða inn á milli trjáa, um þröngar rennur með “pomsum” eins og þau kölluðu það.

hlynurski.jpg

arndisski.jpg

Þar að auki voru uppsettar nokkrar svigbrautir með ókeypis tímatöku. Við urðum náttúrulega að prófa það og ég smellti af krökkunum þar sem þau þeystu fram hjá. Hér að ofan má sjá Hlyn og Arndís og svo að neðan Bjargey og Manon.

bjargeyski.jpg
manonski.jpg

3 thoughts

  1. Geilo er frábær staður. Ég fór þangað einu sinni í skíðaferðalag og er ekki frá því að ég hafi gist í sama bústað. Rosa kósý!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *