Hvað með lykilorð?

viktororri.jpg
Viktor Orri, frá myndatöku 19. mars síðastliðinn.

Það er erfiðara en maður heldur í fyrstu að lýsa ljósmyndum og flokka þær. Myndir eru nefnilega ekki búnar til úr orðum og geta vakið upp mjög misjafnar tilfinningar hjá fólki, allt eftir myndefninu. Tökum myndina af honum Viktori Orra sem dæmi. Einhverjir segja að hann sé að brosa eða hlæja á meðan aðrir myndu segja hann vera að segja eitthvað hátt, jafnvel öskra.

En þegar við skráum myndir og viðhengjum lykilorð er einfaldast að byrja á myndatextanum. Hann gefur okkur svo ákveðinn grunn að lykilorðum sem við getum notað.

Tökum setninguna ?Strákur leikur sér að bolta? sem dæmi.

Lykilorðin sem eru augljós eru: strákur, strákar, leika, leikur, boltar, bolti. Þegar þú ert búinn að bæta við öllum augljósum lykilorðum er kominn tími að kafa aðeins dýpra og spá í það hvort myndin tjái e-h hugtök.

Myndin gæti tjáð hugtakið leikur sem dæmi. Og ef strákurinn er glaður og brosandi er hægt að bæta við lykilorðum eins og gleði og ánægja. En það er mikilvægt að ofnota ekki hugtaka lykilorðin. Góð regla er að bæta þeim einungis við ef myndin tjáir hugtakið nokkuð sterklega, því annars er hætt við að leit í myndasafninu verði ómarkviss.

Gott er að huga einnig að fjölbreytileika. Þó að ákveðin orð séu algengust í orðnotkun eins og t.d. strákar, þá sakar ekki að bæta við drengir og piltar í sömu skráningu. Einnig er hægt að ganga mun lengra í flokkun á fólki eftir aldri, kyni ofl.

Eftirfarandi er vinnulisti sem ég hef snúið á íslensku með góðfúslegu leyfi David Riecks sem stendur fyrir afar áhugaverðum vef um skráningu mynda.

Þegar við erum að skrá og útbúa lykilorð er gott að spyrja sig þessara spurninga:

Hver?

Er fólk á myndinni, hlutur að landslag?
Ef það er fólk > þá gjarnan lýsa kyni og aldri.
Hafa persónunar hlutverk? (dæmi: faðir, móðir, læknir, kennari o.s.frv.)
Skiptir hugsanlega máli að taka fram kynþátt og e-h annan hóp sem fólkið tilheyrir?
Er myndin af fólkinu eða er fólk hluti af myndinni?

Hvað?
Hvað sérðu á myndinni?
Hverju tilheyrir viðfangsefnið (dæmi: hvalur er líka spendýr, sjávardýr o.s.frv.)
Hvað er viðfangsefnið á myndinni að gera? Er það kyrrt eða á hreyfingu?
Hvað með aukahluti eins og klæðnað, bækur, tölvur, leikföng, farsímar o.s.frv.?
Hvaða tilfinningu tjáir myndin?

Hvar?
Hvar er myndin tekin? (og skiptir það máli fyrir textann?)
Myndi vera kostur að geta fundið þessa mynd með leit í Location/City/State/Country IPTC reitunum?
Er svæðið hluti af stærra svæði?
Gerist myndin innandyra eða utandyra?

Almenn regla er að setja inn Location upplýsingar fyrir allar myndir, nema þær sem eru almennar lífstíls myndir, teknar innanhúss, heima við eða studio. Ekki nema við teljum það sérstakan kost að geta fundið myndir innan úr heimili á Íslandi sem dæmi.

Hvenær?
Hvenær var myndin tekin?
Er viðeignandi að taka sérstaklega fram dagsetninguna (t.d. 17. Júní)
Hvenær dags er myndin tekin? Morgun, hádegi, kvöld ? og skiptir það máli að taka það fram?
Hvenær á árinu? Er kostur að geta t.d. fundið myndina undir lykilorðinu haust?

Hvers vegna?
Hvers vegna er þetta að gerast á myndinni?
Hvers vegna var myndin tekin (ef það á við að taka það fram)?
Sýnir þessi mynd okkur e-h hugtök?

Hvernig?
Hvernig er myndin mikilvæg eða það sem er að gerast á henni?
Hvernig lýsingarorð kallar myndin fram? (dæmi: heitt/kalt, ljóst/dökkt o.s.frv.)
Hvernig er útlit myndarinnar? Er hún mjög skörp, ljós, dökk, litsterk o.s.frv.

Þessi listi er þó langt frá því tæmandi…

4 thoughts

  1. Mjög gott að fá svona fræðilega hlutann af þessu.

    Ég er búinn að vera vinna í mínum myndum en er aðalega að þessu fyrir fjölskyldumyndirnar, ertu með einhverjar aðrar pælingar fyrir fjölskyldumyndirnar þínar eða flokkar þú þær alveg eins og allar hinar, þeas eftir sömu aðferð?

  2. Góður vefur hjá þér og skemmtileg efnistök. Það væri mjög gaman að sjá pælingar þínar varðandi gagngeymslur þ.e. hvernig þú geymir allar þessar skrár. Með öflugri myndavélum verður þetta vandamál stærra og stærra.

  3. Sæll Örvar.
    Fjölskyldumyndirnar fá sömu flokkun, þ.e. ég nota sama lykilorðasettið en auðvitað verða til öðruvísi (persónulegri) lykilorð.

    Takk fyrir hólið Arnold. Já gagnageymslur eru ekki lítið atriði í dag með öll þessi Gíga- og jafnvel Terabæt. Auk þess að hýsa efnið á tvöföldu harðdiska kerfi hef ég nú bætt við hýsingu á http://www.photoshelter.com þar sem ég set allt inn frá og með 2007. Svo mun ég vinna mig aftur í tímann eins og tími gefst til. Verðið er mjög hagstætt – þar er hægt að hýsa 1 TB fyrir 1000 USD á ári. Þar að auki er kerfið sniðið fyrir atvinnuljósmyndara og mjög þægilegt að deila myndum með viðskiptavinum. Mæli með því að sem flestir tékki á þessu.

  4. Óþarfi að þakka fyrir hólið. Þakka þér miklu frekar, hressandi að lesa hugleiðinga þínar nú þegar amatörismi tröllríður ljósmyndageiranum. Það veitir ekki af mönnum eins og þér nú á tímum. Án nokkurns vafa besti vefur um ljósmyndun hér á landi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *