Reykjanesið filmað með sænska gæðastálinu

reykjanes_bjarg.jpg

Þá koma fleiri myndir frá ferðinni okkar á sumardaginn fyrsta út á Reykjanes. Ég hafði ekki komið út að Reykjanesvita áður og því ekki séð þennan fallega stað. Þarna á Valahnúk stóð upphaflegi Reykjanesvitinn, en hann var reistur 1878 og var fyrsti ljósviti á Íslandi. Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli byggður. Það er svolítið dæmigert fyrir þann rosalega ljósmyndaáhuga sem hefur gripið Íslendinga (mér finnst annar hver maður eiga búnað fyrir fleiri hundruð þúsund!) að maðurinn þarna upp á Valahnúk var einnig ljósmyndari.

Það var gaman að skjóta svolítið á filmu aftur – og ekki síður að nota sænska gæðastálið sem hefur svo gott sem rykfallið hjá mér síðan ég fékk fyrstu alvöru stafrænu vélina. Það er mun meira fyrir því haft að nota filmuna, það er dýrara og gæðalega séð er stafræna ljósmyndin fyrir löngu búin að sanna sig. En samt sem áður hefur filman e-h galdur. Bara það eitt að skjóta á filmu fær mann til að hægja á sér og hugsa meira um rammann, sem er nauðsynlegt að rifja upp annars slagið á þessum “magnið umfram gæðin” – tímum ljósmyndunar.

kleifavatnii.jpg

Ég hef orðið var við það að sumir sem hringja og spyrja mig út í myndatökur eru uppteknir af því hversu margar myndir þeir fá og eru greinilega að bera saman ljósmyndara út frá því. Auðvitað er það hluti af samanburðinum þegar ráða skal ljósmyndara, en í mínum huga er fjöldi mynda samt aukaatriði. Það er nefnilega þannig að ein virkilega góð ljósmynd vegur á við þúsund þokkalegar. Stafræna byltingin í ljósmyndun hefur opnað marga skemmtilega möguleika og myndnotkun hefur aukist mikið, sem getur ekki verið annað en jákvætt fyrir ljósmyndun. Hins vegar finnst mér tæknin hafa líka ýtt undir ákveðna meðalmennsku og metnaðarleysi. Og þá friða menn gjarnan samviskuna með því að afgreiða fleiri myndir í þeirri von að viðskiptavinurinn verði ánægður.

En áfram með smjörið og myndirnar. Myndin hér að ofan er frá Kleifarvatni. Árni er þarna á röltinu með gamla Weltaflex í hönd sem stendur vel fyrir sínu. Það er gott að eiga nóg af útrunnum filmum til að gefa svona snillingum eins og Árna. Ég á heilan haug af alls konar filmum sem ég geymi í kæli eða frysti. Þegar ég var í námi í Danmörku þurfti ég ekki að kaupa eina einustu filmu, bæði átti ég mikið magn af útrunnu sem ég fékk hjá pabba (hann verslaði alltaf mjög ríflega hér áður fyrr) og svo gáfu umboðin okkur ljósmyndanemunum filmur sem voru útrunnar.

seltun.jpg

Hér er svo ein frá Seltúni við Krýsuvík sem er tekin líkt á hinar á gamla útrunna Fuji NPS 160 filmu. Þær eru allar teknar með Distagon 50mm sem er ein af mínum uppáhalds linsum við 503CW vélina. Ferningsformatið er líka svo skemmtilegt í bland við víðvinkil. Hasselblad Superwide eða Biogon 38mm er samt sú albesta þegar það kemur að víðlinsum og nánast ómissandi í arkitektúrinn. Ég æltaði að linka á hana inn á Hasselblad síðunni en mér sýnist þeir hættir framleiðslu á þessu eðalgleri.

kleifarvatn3.jpg

Ég tók líka svolítið á Hasselblad Xpan í ferðinni (þeir virðast líka vera hættir að framleiða hana) og notaði svart/hvíta Ilford XP2 super, sem er í miklu uppáhaldi. Xpan-inn keypti ég á meðan ég var í námi í Danmörku árið 1998. Þessi vél er mjög nett og skemmtileg og linsugæðin koma verulega á óvart. Það var Fuji sem framleiddi þessar vélar líkt og raunin er víst með H2/H3 í dag. Sem dæmi um hversu góðar þessar linsur eru þá er mynd eftir mig í verslun ÁTVR að Lynghálsi sem er í stærðinni 100 x 250 cm og skerpan er hreint mögnuð. Þar að auki var myndin tekin án þrífóts á lokararhraðanum 1/60 úr sekúndu, en þar sem vélin er rangefinder er mögulegt að vinna á mun hægari lokarahröðum handhelt. Xpan er líka stórskemmtileg í mannlífsmyndir, þess vegna portrett. Myndina hér að neðan tók ég af Ara Carli syni mínum áður en við lögðum í hann um daginn. Það var e-h eldgömul 400 ISO Kodak filma í vélinni sem átti nokkra ramma eftir…

ari_xpan.jpg

2 thoughts

  1. Djöfull eru þetta flottar myndir hjá þér, karlinn.
    Síðasta myndin sýnir svo væntanlega álfinn reiða sem þið funduð á Reykjanesinu 🙂

  2. Trúi ekki að myndin í Heiðrúnu sé tekin á xpan, magnað alveghreint.

    Kv

    Guðni

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *