Lummukofi dauðans

Eftir vel heppnaða balletsýningu í Borgarleikhúsinu í gær (Arndís dóttir mín æfir ballet) fékk balletstjarnan okkar að velja veitingastað sem við færum á til að snæða kvöldmat, enda sýningin rúmir tveir tímar, hófst kl. 18 og því allir orðnir vel hungraðir. Sú stutta valdi Lummukofann eða Pizza Hut eins og hann heitir á frummálinu.

Við hefðum átt að kveikja þegar við sátum og biðum eftir að pöntun yrði tekin og hlustuðum á jólalög. Já, jólalög. Fyrst höfðu reyndar 2-3 lög í sérlega þreytandi panflautu útsetningum fengið að klárast, þ.á.m. lagið Sex Bomb sem hljómar, eins og flest önnur lög, fáranlega í svona búningi. Undir seiðandi jólasöng Sissel Kirkjebo pöntuðum við matinn og byrjuðum svo að bíða. Sú bið slagaði hátt í klukkustund. Staðurinn var hálftómur og það tók tæpa klukkustund að matreiða pizzur. Þegar við spurðum hvar falda myndavélin væri var fátt um svör. “Prentarinn bilaði” sagði stúlkan. Vissi ekki að prentarar væru notaðir við lummubakstur. Eftir fum og fát yfir því að maður skildi hafa haft orð á þessu var okkur boðin frí áfylling á gosið eða ís fyrir börnin í eftirrétt. Vá! Þvílíkir höfðingjar. Ég afþakkaði pent, en sagðist vilja sjá afslátt af reikningnum.

Það var orðið við þeirri ósk minni og málið því útkljáð frá mínum bæjardyrum séð. Auðvitað geta allir gert mistök og mistökin eru til að læra af þeim. En ég er hræddur um að starfsmannavelta veitingastaða í dag komi algerlega í veg fyrir það. Þetta var alla vega í 3ja skiptið í röð sem ég fer út af þessum stað fúll yfir þjónustunni. Ég fer ekki oft á Pizza Hut (skiljanlega) en í hvert skipti sem það á að gefa þeim séns er málunum klúðrað með slakri þjónustu. Maturinn er alltaf í lagi svo sem. En kannski er það vegna þess að maður er orðinn svo hungraður?

Ég hef töluverða þolinmæði þegar það kemur að svona málum. Ég hef starfað sem framkvæmdastjóri í þjónustufyrirtæki þar sem ég þurfti að taka á alls konar klúðri. Þó að ég sé sjálfstætt starfandi í dag útilokar það að sjálfsögðu ekki að mistökin gerast. Eins og ég sagði, allir gera mistök, þau eru mannleg og ef allt er í lagi hjá manni þá eru þau staðfesting á því að maður er að þroskast og læra. Þegar mistök koma upp þarf að taka strax ábyrgð á þeim (ekki kenna prentaranum um) segja sannleikann og bæta svo fyrir þann skaða sem hefur orðið.

5 thoughts

  1. Hef líka fengið slæma þjónustu hjá þeim á Lummukofanum (gott orð hjá nýbúanum) oftar en einu sinni – en þeir gera svo helv… góðar lummur…

  2. Ég fór á PH í Reykjavík þegar staðurinn var nýopnaður og hét því að koma aldrei þangað aftur. Svipuð saga og ykkar í gangi og þetta var líklega 1988!
    Þetta með prentarann er náttúrulega snilld og var líklega ekki reynt á okkur forðum, endar prentarar ekki til þá.

  3. Slakur svili, slakur.
    Þú gerðir rétt með því að sleppa starfsmanninum við hýðingu. Svei svona löguðu, svei bara.
    Ég styð þig svili.

  4. He við fjölskildan fórum á Dömuna Rauðarárstíg maturin var í lagi og þjónustan líka en að rukka 310 isk fyrir 0,3l Coke það fékk mig til að hugsa hvað skildi það hafa kostað fyrir vsk lækuninna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *