Hvert þó í hoppandi

cld070624_trampolin_004.jpg
Ari og Eliot taka snúning á trampólíninu í dag.

Það líður allt of langt á milli pósta þessa dagana. Allt brjálað að gera og ofan á það erum við fjölskyldan að undirbúa flutning, en við erum á förum úr Hraunbænum upp í Sandavað um mánaðarmótin. Já, Norðlingaholtið var það heillin. Sama póstnúmer – mikið atriði. Við erum annars komin vel áleiðis í að pakka (konan á nú mestan heiðurinn af því) og búin að fara ófáar ferðir á Sorpu. Maður þyrfti eiginlega að flytja árlega. Þá myndi ekki safnast upp svona endalaust dót! Kannski var þessi fræga vorhreingerning sem fyrri kynslóðir stóðu í ekki síst notuð í að taka til hendinni og losa heimilin við óþarfa dót?

cld070624_trampolin_023.jpg
Bjargey tekur flugið.

Svo var grillboð hjá Gittu systir í dag. Tók þessar myndir af krökkunum við það tækifæri. Allt saman tekið á f/4 og 1/400s á ISO 200 og með EF 24-70 f/2.8L linsunni. Ég bæði elska og hata þá linsu. Hún er frábærlega “all-round” en stundum finnst mér hún fáranlega loðin út í kanntana, jafnvel stoppuð vel niður. Talandi um linsur þá á ég von á linsu á morgun eða hinn, fer eftir því hvað UPS standa sig vel. Pantaði mér loks hina viðfrægu EF 85mm f/1.2L II. Hlakka gríðarlega til að fá hana því þetta er auðvitað draumagler. Ég var búinn að fresta kaupum í svolítinn tíma því ég keypti notaða EF 135mm f/2L sem er líka æðisleg. En hún er oft aðeins of löng og svo munar auðvitað mjög miklu að geta unnið á svona stórum ljósopum, sérstaklega í brúðkaupsveislu og slíku.

cld070624_trampolin_015.jpg
Arndís í splitt-stökki.

Svo fer að styttast í nýtt flaggskip frá Canon. Í haust kemur víst loksins Canon EOS 1Ds MIII. Ég ætla að skjóta á að hún verði 22 Megapixlar með flestum þeim uppfærslum sem við höfum nú þegar séð í EOS 1D MIII. Það þýðir þá 3ja tommu LCD skjár með Live View, Dual DIGIC III örgjörvar fyrir myndvinnsluna, nýjar og betri rafhlöður, hreinsibúnaður á flögunni, 14bita A/D converter og nýja kerfið fyrir sjálfvirka fókusinn. Það hefur reyndar verið mikil umræða um ágæti þess að undanförnu. Svo virðist sem hann virki alls ekki nógu vel og eigi hreinlega í basli stundum. Hér er grein á vef Rob Galbraith sem fjallar um málið. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að kerfið sé alls ekki í lagi. Aðrir segja að það sé frábært. En það virðist alla vega vera e-h vandamál í gangi, hvort sem þau eru bundin við einstakar vélar eða þær allar. Ég veit að það eru þónokkrar svona vélar seldar hér á landi en ég hef ekki heyrt frá eigendum þeirra. Kannski e-h þeirra lesi þetta og geti gefið komment?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *