Aðflug að Reykjavíkurflugvelli

cld070612_loftmynd_1021.jpg
Kajakar í Nauthólsvík, 12. júní 2007.

Það er hægt að ímynda sér leiðinlegri daga í vinnunni en þennan. Á svona dögum er fátt sem toppar þetta starf held ég. Loftmyndaflug er með því skemmtilegra sem ég geri, sérstaklega ef það er úr þyrlu. Það er hins vegar erfiðara en maður heldur í fyrstu. Til að fá topp skerpu þarf auðvitað vinna á mjög stuttum lokarahraða (helst ekki undir 1/1000 úr sekúndu) og nota eingöngu bestu linsurnar. Þar sem fjarlægðin í viðfangsefnið er yfirleitt stillt á óendalegt (nema þegar um mikið lágflug er að ræða) er í góðu lagi að vinna á frekar stórum ljósopum. Hér eru það föstu, björtu linsurnar sem sanna sig einna helst, eins og EF 35mm f/1.4L og EF 50mm f/1.4L. Þessi mynd hér að ofan er reyndar tekin með EF 70-200 f/2.8L IS sem reynist líka mjög vel þar sem hún er með innbyggðri hrisstivörn eða image stabilizer. En það sem einna helst virðist eyðileggja skerpuna er útblásturinn úr þyrlunni, sérstaklega ef það er flogið undan vindi. Ég fór í loftið tvo daga í röð um daginn og kom með um 1500 ramma í hús. Mjög stór hluti er svona 90% skarpur. Það er því um að gera að mynda nógu helv.. mikið! En það er hrikaleg vinna að fara í gegnum allar þessar skrár og skoða hlið við hlið í 100% stærð til að dæma skerpuna.

cld070612_loftmynd_980.jpg
Ströndin við golfvöll Hafnarfjarðar. 12. júní 2007.

Myndirnar hér að ofan voru báðar teknar að verkefni loknu í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli. Ég var að ljósmynda framkvæmdir víðs vegar um borgina fyrir ónefndan verktaka. Verst hvað það kostar mikið að leigja þyrlu. Ég hefði vel getað hugsað mér að leigja þyrluna út daginn til að mynda svo bara fyrir sjálfan mig! Ólíklegustu svæði breytast nefnilega í undraveröld þegar þau eru séð úr lofti. Svo er bara eitthvað svo dásamleg tilfinning að ferðast um í þyrlu.

One thought

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *