Nýtt dót og horfinn heimur

1dsmk3_586x225.gifCanon tilkynnti í dag nýju EOS 1Ds Mark III vélina sem margir (þar á meðal ég) hafa verið að bíða eftir, enda að verða komin 3 ár síðan að 1Ds Mark II vélin kom á markað. Helstu breytingar eru:

  • 21 megapixel Full-frame CMOS skynjari (36 x 24 mm)
  • 5 rammar á sekúndu (allt að 56 JPEG eða 12 RAW myndir í biðminni)
  • Compact Flash UDMA stuðningur (hraði allt að 45 MB/sec)
  • Stór og bjartur skoðari, með meiri stækkun en í EOS-1Ds Mark II
  • Allar uppfærslurnar sem við sáum í 1D Mark III vélinni fyrr á árinu (14 bit A/D breytir, nýtt sjálfvirkur fókus, nýr 3ja tommu skjár o.s.frv.)

Meiri upplausn á sömu skynjarastærð þýðir minni pixlar, sem fræðilega þýðir meira suð (noise). Engu að síður halda þeir Canon-menn því fram að þessi vél skili enn betri útkomu en fyrri vélar. Einhvern veginn efast ég ekkert um það. Ég bíð bara spenntur eftir því að sjá myndir úr gripnum.

Annars er bara ljómandi lukka á bænum með sýningaropnunina hans pabba í gær. Hann fékk töluverða umfjöllun bæði í Blaðinu og Fréttablaðinu og því var góð mæting. Það hafa víst aldrei eins margir mætt á opnun í Gallerí 100 gráður, sem er auðvitað mjög ánægjulegt, en það mættu á bilinu 4-500 manns (ríflega 300 rituðu í gestabókina). Það voru allir ánægðir með sýninguna, sem kom mér ekki á óvart því þetta voru fínar myndir hjá þeim gamla og virkilega gaman að liggja yfir þessum gersemum í úrvinnslunni. Ég held að margir hafi fengið nýja sýn á myndasafnið hans pabba, en þessar gömlu mannlífmyndir eiga ekki síður upp á pallborðið finnst mér.

saudarfossar.jpg
Sauðárfossar, 8. júlí 2006. Canon EOS 5D og EF 17-40mm f/4 L.

Ég var svo rétt í þessu að klára að senda nokkrar myndir af horfnum heimi út í heim í tengslum við bók sem breskur líffræðingur er að skrifa um lífríkið hér á norðurhveli. Myndin hér að ofan er frá Sauðárfossum, þar sem Sauðá rann niður í Jökulsá á Brú. Það er ótrúlega sorglegt að þessi magnaði staður skuli núna vera djúpt á botni Hálslóns, horfinn fyrir fullt og allt. Og hvað er málið með þessa Olíuhreinsunarstöðvar-umræðu? Erum við endanlega að tapa glórunni? Það er ótrúlegt hvað þjóðin virðist vera tilbúin að ganga langt, svo hún þurfi ekki að setjast niður og hugsa – og hætta á það að vera frumleg og skapandi. Eigum við ekki bara að opna nýtt Sellafield líka?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *