Kreisý

d3front-001.gifAllt brjálað. Nikon kynnir D3, fyrstu full-frame vélina frá Nikon. Samt “bara” 12 milljón pixlar. Engu að síður frekar öflug vél ef maður skoðar nánar. Nýr CMOS skynjari sem á víst að vera svo gott sem laus við “noise” eða suð. Ljósnæmni frá ISO 200-6400 ásamt sérstakri low stillingu (ISO 100) og svo tveimur high stillingum sem þýðir allt að ISO 25600 (nei þetta er ekki prentvilla). Það er ljóst að þessi vél kemur til með að velgja Canon EOS 1D Mark III undir uggum. Nikon á þó enn eftir að koma með svar við 1Ds MII. Eitthvað slúður hefur heyrst að 15-16 milljón pixla Nikon D3x muni ekki vera allt of langt undan, en það kemur í ljós hvað er til í því.

En allur þessur fókus á megapixlana skiptir minna máli en fólk heldur. Tökum Canon EOS 5D sem dæmi. Ríflega 12.5 milljón pixlar á 24x36mm skynjara. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá get ég varla séð neinn alvöru mun á því að skjóta með henni á móti Canon EOS 1Ds Mark II sem er 16.5 milljón pixlar. Þar sem pixel-þéttleikinn er minni á fimmunni skilar hún hreinni skrám. Því grunar mig að þessi nýji þristur frá Nikon eigi eftir að verða algjör dúndur vél. Algjör snilld fyrir blaðaljósmyndara og “event” ljósmyndara eins og mig. Við feðgar erum með sitt hvort kit-ið og því verður uppfært á báða bóga. Við erum svona “bæði betra” menn. Veljum bara allt dótið!

kjos-veidi.jpg
Laxá í Kjós, Hasselblad X-pan 45mm f/4, Ilford XP2

Svo er allt annað líka brjálað. Ég er upp fyrir haus í myndvinnslu. Brúðkaupin bíða í röðum eftir vinnslu. Svo er ég að leggja lokahönd á úrvinnslu mynda frá veiðiferð sem ég myndaði í byrjun ágúst. Var tvo daga í Kjós að elta veiðimenn. Lítið um fisk, en ég var þó svo heppinn að vera tvisvar á réttum stað þegar laxinn tók. Furðulegt fyrir mig að vera svona heppinn? Hef hingað til verið talinn frekar seinheppinn. Eða er ég kannski bara svona klaufi? Það var alla vega þokkaleg heppni þar sem stangirnar eru tíu (og því 20 veiðimenn) á frekar stóru svæði. Áin var reyndar stútfull af fiski, en það var svo lítið í henni að hann var ekkert að taka. Á meðan veiðimennirnar köstuðu í gríð og erg stökk bæði lax og sjóbirtingur bókstaflega á milli fóta þeirra! Ég hafði mjög gaman af þessu verkefni. Hvernig er annað hægt þegar maður fær greitt fyrir að vera tvo heila daga úti í náttúrunni að leika sér? Ég tók með mér Xpan og skaut nokkrar filmur svart/hvítt, svona til að fá annan vinkill með þessu stafræna.

One thought

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *