Ljósmyndasýningar

daabladidviisir.gifÁ morgun opna tvær ljósmyndasýningar. Sú fyrri er sýning á fréttaljósmyndum úr blaðaljósmyndasafni 365 miðla sem Ljósmyndasafn Reykjavíkur tók við til varðveislu sumarið 2006. Um er að ræða ríflega 150 myndir frá 1960 – 2000 frá síðdegisblöðunum Vísi (1961 – 1981), Dagblaðinu (1975 – 1981) og DV (1981 – 2002).

Ég er reyndar búinn að sjá sýninguna, þar sem ég sá um prentun og frágang þessara bráðskemmtilegu mynda. Mér finnst safninu hafa tekist vel að búa til heilstæða en um leið fjölbreytta sýningu. Skemmtileg sýning sem ljósmyndaáhugafólk má ekki láta framhjá sér fara.

Seinni sýningin opnar í Saltfiskssetri Íslands í Grindavík. Þar er á ferðinni áhugaverð sýning Sigursteins Baldurssonar – eða Steina Fjalls eins og hann er oftast kallaður. Steini er dugmikill ljósmyndari sem ferðast víða um landið í efnisleit. Undanfarið hefur hann einkum einbeitt sér að 360 gráðu ljósmyndum, þar sem margar myndir eru settar saman í eina heild. Hann notar HDR tæknina til að skapa tónasvið sem áður hafa verið ómögulegt að ná í eina mynd. Ennfremur hefur hann gert hreint magnaðar 360 gráðu norðurljósamyndir sem eru að mínu mati sniðugasta birtingarmynd þessara náttúrufyrirbrigða.

steinfjallposter_s.jpg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *