Tæknin er aðeins að stríða okkur

Er í smá basli við að uploada myndum inn á wordpressið. Vonast til að þjónustuaðilinn minn nái að lagfæra þetta í dag. Ætlaði að pósta voðalega sniðugu bloggi ásamt myndum fyrir helgi en var sem sagt í bölvuðu basli. Nú man ég reyndar ekki hvað var svona sniðugt.

Annars allt ljómandi að frétta. Það er alla vega enginn mánudagur til mæðu hjá mér. Fínt að byrja vikuna með nóg að gera. Hér á Hverfisgötunni er verið að prenta á fullu, hellingur af verkefnum á Epsoninn góða. Þessi hluti af starfseminni hefur vaxið jafnt og þétt hjá mér – þ.e. að sjá um hágæða prentun fyrir þá sem þurfa. Er þar myndlistarfólk í miklum meirihluta. En líka töluvert af ástríðuljósmyndurum.

Það er magnað að sjá hversu mikið af fólki er að gera flotta hluti í ljósmyndun í dag. Ekki síst svokallaðir áhugamenn. En hvað er þetta með skilgreiningu okkar á áhugaljósmyndurum og atvinnuljósmyndurum? Samkvæmt minni skilgreiningu þá er ekki hægt að vera ljósmyndari án þess að hafa áhuga. Atvinnuljósmyndarar eiga það til að missa áhugann. Og þá fara menn að væla um lögverndaða iðngrein þegar aðrir ljósmyndarar fá verkefnin “þeirra”.

Mér er slétt sama hvort ljósmyndarar hafi tilskilin réttindin eður ei. Ef maður er góður í því sem maður er að gera hefur maður einfaldlega nóg að gera. Punktur. Þegar þessi mál eru rædd, bera oft upp á góma aðrar iðngreinar og furðulegar samlíkingar. Til dæmis að maður myndi ekki fá bara einhvern til að sjá um rafmagn eða pípulagnir hjá sér. Það er auðvitað rétt. En mér finnst ljósmyndun ekki eiga heima undir þessum sama hatti. Ljósmyndun er svo huglæg og í raun svolítið fáranlegt að hún skuli enn telja til iðngreina.

Þegar ráða skal ljósmyndara verður að kynna sér verkin hans. Maður hefur enga tryggingu fyrir því að viðkomandi geti leyst verkefnin nema að sjá hvað hann hefur gert. Nú velta margir fyrir sér – af hverju? Á ekki viðkomandi að hafa gengið í skóla og lært að taka alls kyns myndir? Það myndi maður nú halda. En málið er að það lærir enginn ástríðuna í skóla. Það þarf að vera kraumandi ástríða á bak við hverja mynd til þess að hún sé sterk. Ljósmyndun er persónuleg. Við ráðum ákveðinn ljósmyndara því hann/hún talar því máli sem við þurfum að miðla. Hvort sem það er á brúðkaupsdaginn eða í ímyndarherferð fyrir banka.

Tæknin hefur verið að stríða okkur. Allt of margir halda að tæknin leysi öll vandamál. Kaupum nýja myndavél og tökum betri myndir. Ef það væri bara svo einfalt!

4 thoughts

  1. Ég er algerlega sammála þér og berst af vanmætti við svipaðar grýlur. Ég má ekki bjóða upp á LEIÐSÖGN um París því ég er ekki með próf. Hins vegar er ég sannfærð um að mín leiðsögn/fararstjórn/skemmtiganga/söguganga er engu verri en þeirra með prófin, jafnvel bara skemmtilegri, hver veit?
    Huglæga hluti er aldrei hægt að vega og meta með einkunnum og prófskjölum.

  2. Alveg sammála þér í þessu Chris. Að mínu mati ætti að vera kennd ljósmyndun þ.s. mikil áhersla er lögð á listræna hluta ljósmyndunar. Þannig ætti LHÍ að geta t.d. útskrifað fólk í listrænni ljósmyndun sem hafa þá sama rétt og iðnlærðir ljósmyndarar eða þá að fella út þessa lögvernd og láta verkin tala! Ég geri alls ekki lítið úr náminu, námið getur í flestum tilfellum verið undirstaða árangurs og þannig hjálpað við að rækta hæfileika hvers og eins enn betur en ella. Það er eflaust til mörg og líklega hlutfallslega fleiri dæmi um ljósmyndara með tilskilin réttindi sem ekki hafa ástríðuna heldur en að “áhugaljósmyndarar” hafi ekki ástríðuna. En það eru líka dæmi um að menn hafa ástríðuna og telja þess vegna að þeir geti selt vinnu sína út á hana en hafa kannski ekki næga þekking eða reynslu sem menntunin getur hjálpað upp á.

    Einmitt góður punktur þetta með orðið “áhugaljósmyndari”, útlærðir ljósmyndarar eru líklega flestir áhugaljósmyndarar. Í raun á að skilgreina alla sem taka ljósmyndir sem “ljósmyndara”, alveg eins og að ökumaður er alltaf ökumaður hvort sem hann er með bílpróf eða ekki. Ef einhver skilgreining á að vera þá eru menn annað hvort skólagengnir ljósmyndarar eða ekki eða einhver álíka skilgreining.
    Reyndar er ég þó á því líka að það eru of margir sem telja sig vera komna í nógu góða stöðu til að selja vinnu sína nánast sama daginn og þeir kaupa græjurnar. En þá kemur einmitt að vitundarvakningu neytandans, hann ætti alltaf að fá að sjá fyrri verk áður en ljósmyndari er ráðinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *