Síðbúnar hátíðarkveðjur


Ari skoðar nýju risaeðlubókina. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L.

Gleðilega hátíð öll sömul og kærar þakkir fyrir mig og fjölskylduna! Þetta voru mikil bókajól hjá börnunum mínum sem er frábært. Held að þau hafi fengið 6-7 bækur hvert. Ég fékk tvær ljósmyndabækur, eina Steve McCurry bók sem er æðisleg og svo líka eina National Geographic bók frá gamla. McCurry er einn af mínum uppáhalds ljósmyndurum. Næmni hans fyrir mótívum, fólki og litasamsetningum er ótrúleg. Tæknilega er hann líka gríðarsterkur. Hárfín notkun á dýptarskerpu og nákvæm römmun eru hans aðalsmerki. Þessi bók er ofsalega vel prentuð, myndir eru lakkaðar með klisu og poppa því út úr síðunum, án þess þó að fá of mikinn glans. Hún er ekki mjög stór og því tilvalin gjöf fyrir ljósmyndarann ef e-h er í vandræðum með að finna svoleiðis ;)Annars ættu allir ljósmyndarar að vera með óskalista á tveimur stöðum; BHphoto og Amazon. Sá síðarnefndi er kannski aðeins viðráðanlegri fyrir vini og vandamenn þar sem BHPhoto er jú dótabúð dauðans þegar kemur að ljósmyndun. Ég er alltaf að uppfæra listann minn hjá Amazon og það er nú hætt við því að ég panti mér nokkrar bækur á nýja árinu. Bóksalar hér á landi eru nefnilega ekkert ofboðslega flinkir þegar kemur að ljósmyndabókum. Eru allt of mikið með það sama og þetta eru allt svona “öruggar” bækur sem hafa selst vel og lengi. Tók reyndar eftir því að Eymundsson voru með ágætt tilboð á stóru Magnum bókinni, kostaði rétt tæpan 10.000 kall sem verður að teljast fínt verð fyrir svo veglega bók. Ég hef verið að pæla í að kaupa hana á Amazon en þegar hún er kominn niður í þennan prís borgar það sig ekki lengur.Ég þarf að hrósa Beco líka fyrir að standa sig þegar kemur að verðum í Profoto. Ég var búinn að ganga með það lengi í maganum að uppfæra ljósakostinn minn. Eftir að hafa fengið mér Profoto AcuteB 600 ljós fyrir sumarið var ljóst að Profoto yrði líka fyrir valinu fyrir studioið. Ég fékk tilboð hjá Beco í myndarlegan pakka (Acute 2400r generator með þremur hausum og tilbehör) og þó að BHPhoto var eitthvað aðeins þá var ekkert vit í því að fara að versla svona búnað að utan fyrir ekki meiri mun. Maður má ekki gleyma því að endursöluaðilar hér heima kaupa auðvitað á mun hærra verði en stóru verslanirnar úti og Beco er með ótrúlegan lager af dóti og varahlutum fyrir ekki stærri markað. Þannig að Beco fær klapp á bakið frá mér – og þá aðallega Pétur nokkur Thomsen, starfsmaður þar sem leggur sig ávallt 110% fram við að veita manni góða þjónustu.Ljósatest með púkanum. EOS 1Ds Mark III, EF 85mm f/1.2L II.

Myndavélina keypti ég hjá Nýherja. Ég hef það fyrir reglu að kaupa búnað á sem flestum söluaðilum, ef það er fýsilegur kostur. Þannig stuðlar maður að samkeppni sem er öllum fyrir bestu. Hjá Nýherja er Jónas Hallgrímsson hvalreki fyrir okkur ljósmyndara, enda sjálfur ljósmyndari og því með alla Canon hluti á hreinu. Það er nefnilega ekki sjálfgefið í dag að sölufólk í verslunum sé yfirhöfuð með það á tæru hvað það er að selja. Jónas er ennfremur hinn ljúfasti náungi svo ef þið eruð að spá í Canon er óhætt að mæla með því að kíkja til hans.Nýja vélin er mjög skemmtileg, en 21 Megapixel fyrirgefur ekki lélegar linsur. Þannig ef þú ert að spá í þessa vél er ljóst að þú þarft að eiga bestu linsurnar til að verða ánægður með fjárfestinguna. Ég var að ljósmynda innanhús arkitektúr fyrir hádegi í gær og ég sé töluvert betur hversu mjúk TS-E 24mm linsan er. Ég var líka með brúðkaup í gær og þar skaut ég með báðum vélunum, þ.e. Mark III og Mark II. Athöfnin var í Dómkirkjunni sem er langt frá því að vera vel upplýst. Ég var með 35mm f/1.4L á nýju vélinni og 85mm f/1.2L II á þeirri eldri. Þetta kombó er alveg killer. Saknaði 24-70mm f/2.8L ekki vitund, enda þurfti ég að skjóta á mun stærri opum í mörgum tilfellum og fór stærst í ljósop 1.4. Þá er mikilvægt að negla fókusinn!Þar sem ég hef eingöngu notað nýju vélina frá því í lok nóvember fannst mér sú gamla ofsalega hávær og svolítið “triggerhappy” í samanburði við þá nýju. Engu að síður var mjög gott að nota þær saman. Mun þægilegra en Mark II og 5D samsetninguna sem ég hef notað hingað til. Það er eitt sem maður tekur eftir með nýju vélina, en það tengist þéttari/minni pixlum. Það er mun auðveldara að fá óskarpar myndir ef maður er ekki nógu stöðugur. Ég hef það því sem reglu að nota lengri linsurnar á eldra húsinu í svona tökum eins og í gær.Annars má finna svolítið af myndum í galleryinu mínu sem allar eru teknar á nýju vélina núna um hátíðirnar.

One thought

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *