Stephan, Spessi, Sýningar og Skíði


President Bongo – pappahólkur – Spessi. EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Fyrst hér mynd af þeim Stephan og Spessa. Þeir voru hjá mér á föstudaginn. Hólkurinn var fyrir mynd sem ég var að prenta fyrir Spessa. Sú sama og er á kápunni á Location bókinni. Hún er líka hrikalega flott í stærðinni 100×100 cm. Stephan þekkja flestir í tengslum við GusGus. En ekki allir vita að hann er þrælgóður ljósmyndari. Mér finnst það stór plús við þessa prentþjónustu, sem ég fór að bjóða í bland við allt hitt, -> að hitta svo mikið að listamönnum sem allir hafa ferska sýn og gefa manni innblástur. Ég dróg þá líka út og smellti af þeim á filmu. Það gerði ég eftir að Stephan kommentaði á myndavélina sem ég notaði við tökuna hér að ofan. Hann sagði: “Eru þessar stafrænu myndavélar svolítið að koma núna?” Og þar sem Spessi er unoffical Herra Hasselblad Íslands varð ég að taka Bladdarann fram og smella umhverfisportretti af þeim saman. Það er líka komið þetta fína veggjakrot baka til hjá okkur á Hverfisgötunni, sem var upplagt að hafa með. Pósta þeirri mynd þegar ég búinn að framkalla!

Það er reyndar rauði þráðurinn við íslenska ljósmyndara/listamenn -> þeir skjóta flestir á filmu. Tveir úr þeim hópi opnuðu mjög góðar ljósmyndasýningar um helgina, þeir Páll Stefánsson og Einar Falur. Sýningarnar eru reyndar mjög ólíkar þar sem Einar Falur vinnur eingöngu með svart/hvítt og mest á 35mm en Palli með lit eingöngu á medium format. Sameiginlegt eiga þeir félagar að hafa mjög gott auga fyrir umhverfinu. Einar sýnir ákaflega vel unnin, handstækkuð fiberprint sem gleðja nostalgíst ljósmyndaraaugað. Sýningin hans Palla er á neðri hæðinni á Gerðarsafni. Hún er snilldarlega uppsett og Páll sýnir enn og aftur hversu frumlega sýn og hversu tæknilega sterkur hann er. Því fannst mér synd hvað minni myndirnar vantaði meiri teikningu og skerpu, nokkuð sem er klárlega fyrir hendi í hans frumfilmum. En heildarmyndin er sterk svo það eru sjálfsagt fáir sem eru að spá í svona atriði, aðrir en nörrar eins og ég.

Á efri hæðinni í Gerðarsafni er svo Mynd ársins – árleg sýning blaðaljósmyndara. Ég er búinn að skoða hana mjög vel þar sem ég tók vinnslu hennar að mér og hef því verið með þessar myndir fyrir framan mig í nokkrar vikur. Sýningin er því miður of mikið í takt við það metnaðarleysi sem ríkir hjá dagblöðum landins. Einu sinni var gaman að fletta Mogganum út á það eitt að skoða góða frétta- og blaðaljósmyndun. Í dag er fátt um fína drætti. En ekki misskilja mig. Þetta er ekki meint sem gagnrýni á ljósmyndarana. Það eru að sjálfsögðu góðar ljósmyndir innan um. En það er klárt mál að aðstaða þeirra hefur á skömmum tíma gjörbreyst og ljóst að dagblöðin hugsa meira um að selja auglýsingar í e-h sérblöð um verktaka eða fermingar, heldur en að segja okkur frá og sýna hvað er raunverulega að gerast á Íslandi í dag. Rax tekur ekki þátt í sýningunni í ár – og ég er nokkuð viss um að það er ekki tilviljun. Samtímaljósmyndun virðist eingöngu orðin í höndum áhugamanna og listamanna. Flickr sýningin var að mörgu leyti betri samtímaheimild en Mynd ársins. Eða hvað finnst ykkur?


Suðurgil í Bláfjöllum. Canon Ixus 55.

Í dag skellti ég mér svo á skíði með dætrum mínum. Frábær dagur alveg, gott veður, fínt færi og engar biðraðir. Um tíma leið manni bara eins og í Austurríki. Mér finnst eins og margir gleymi svæðinu við Suðurgil. Þar er sólin fljótari að byrja að sleikja brekkurnar og oft svolítið skjólsælla. Það er á svona dögum sem maður rifjar upp dagdraumana sem maður átti sem unglingur um að verða skíðakennari og eyða heilum vetrum erlendis á skíðum allan liðlangan daginn. Lífið er ljúft.

3 thoughts

  1. Skemmtileg mynd af þessum kumpánum, en spessi er einmitt ábyrgur fyrir því að ég tek nánast eingöngu á filmur núorðið.
    Ég er sammála þessu með blaðaljósmyndunina, sérstaklega fannst mér mynd ársins úr takt við myndir undanfarinnar ára, en auðvitað hefur Rax átt margar af þeim myndum, synd að hann sé ekki með!

  2. Er nokkuð sammála þér með stöðu Blaðaljósmyndara í dag. Þessi eilífi sparnaður er farinn að taka sinn toll af gæðum mynda sem skilar sér enn og aftur í slæglegum myndum yfir árið. Þó svo það komi inn á milli fallegar myndir. Einnig hefur það tekið sinn tíma að ná þessum gæðum upp síðan stafræna tæknin hélt innreið sína og ætti hún í dag að vera mun meiri. En þegar myndir úr GSM símum er farið að sjást mun oftar þá spyr maður sig. Hvernig verður að skoða fortíðina eftir 15 ár.

  3. Blaðaljósmyndun er þverrandi listgrein, hér í Kanada er fréttamönnunum bara rétt point and shoot vél, það eru bara stóru blöðin eftir með alvöru ljósmyndara. Helst að þessi grein ljósmyndunarinnar haldist með Documentary ljósmyndurunum sem að gefa sér tíma í að fylgja viðfangsefninu eftir og skapa dýpt í ljósmyndirnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *