Heilladísin orðin 9 ára


Arndís dagsgömul. Canon EOS 1, EF 28-80mm f/2.8L, Ilford HP5.

Það er ótrúlegt að það skuli vera orðin níu ár síðan þessi dís kom í heiminn. Þá vorum við fjölskyldan stödd í Danaveldi, nánar tiltekið í Viborg þar sem ég var við nám í Medieskolerne. Arndís lét hafa fyrir sér, gólaði vel og mikið fyrstu 10 mánuðina, en um leið og sá kafli var yfirstaðinn fór hún að standa undir nafni sem heilladís heimlisins. Hún hefur alltaf verið mjög sérstakur karakter, með óvenju þroskaðan húmor miðað við aldur og þegar hún var farin að tala komu gullkornin nánast á færibandi. Arndís gat ekki sagt k-hljóðin sem bauð upp á svona færeyska útfærslu á mörgum orðum. Einu sinni vaknaði ég við þessi orð: “Pabbi vatnaðu þarna rumputallurinn þinn!”


Arndís 2ja vikna. Hasselblad 503CW, Planar 80mm f/2.8, T-Max 400.

Það er skondið hvað börn eru mishrifin af því að vera ljósmynduð. Arndís byrjaði mjög ung á því að stríða mér með grettum og geiflum þegar ég var að ljósmynda þær systur. Bjargey var alltaf tilbúin með fallegt bros á meðan Arndís lét eins og fífl. Eitt gott dæmi um það er þessi mynd hér:


Systurnar með afmælisköku fyrir 65 ára afmæli afa. Nikon D1x, Nikkor 17-35mm f/2.8D.

En það var stollt 9 ára dama sem pósaði fyrir pabba sinn í dag við hliðina á nýja hraunlampanum sínum. Ég tók nokkrar fleiri myndir í morgun þegar hún opnaði gjafirnar frá systkinum sínum.


Hraunlampinn góði. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L.

3 thoughts

  1. Ég man eftir… Hey viltu sjá nýju tojuna mína 🙂 vissi ekkert hvað hún var að tala um þangað til ég sá kojuna.

  2. Svo var það náttúrulega hamsturinn “Salli” (betur þekktur sem Kalli). 🙂

    Bara flott stelpa!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *