Sumar í London


Little Venice í London. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 24-70mm f/2.8L

Já, kannski kominn tími til að uppfæra síðuna? Síðast þegar ég pikkaði e-h inn hér var það til að tilkynna brottför okkar hjóna til London. Síðan eru liðnar tvær vikur! Við tökum sem sagt langa helgi, heimsóttum Anítu systir og Hlynsa og vorum svo bara að spóka okkur í rólegheitum. Fórum út á fimmtudegi og heim aftur á mánudegi. Ekkert planað annað en að heimsækja systur og fara á Camden Lock á laugardeginum (aðallega til að borða dásamlegan og framandi mat fyrir lítið sem ekkert).

Myndin hér að ofan er ekki beint lýsandi fyrir London – eða alla vega eins og flestir sjá borgina fyrir sér. Það er meira svona Big Ben, tveggja hæða strætisvagnar og ys og þys á Oxford Street. London hefur upp á svo margt annað að bjóða og við eyddum mestum okkar tíma í Hyde Park, Regent Park, Primrose Hill og Hampsted Heath. Þar var fyrsta manneskjan sem mætti okkur engin önnur en Emma Thompson. En við kipptum okkur ekki mikið upp við það þar sem við vorum samferða James Blunt frá Íslandi, en hann er nú ekki meira snobbaður en það að sitja í almennu farrými með Icelandair og taka Heathrow Express inn til London Paddington.


Hyde Park. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 24-70mm f/2.8L

Þetta voru dásamlegir fimm dagar í London og allt of fljótir að líða. En nú er sumrið langt á veg komið og það styttist í frekari ferðalög innanlands sem utan. Hér heima er næst á dagskrá að ljósmynda gæðinga á Landsmótinu á Hellu og svo er ég með arkitektúrverkefni bæði fyrir norðan og á suðurlandi. Ætla að reyna að tvinna það saman með útilegum ef ég mögulega get. Minnir mig á gamla daga þegar við fjölskyldan fórum hringveginn og pabbi þeystist um og myndaði af kappi fyrir hina og þessa. Ætli maður verði ekki alltaf eins og foreldrar sínir á endanum?

Fyrir ljósmyndanörrana þá eru báðar myndirnar eingöngu unnar í Lightroom…

2 thoughts

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *