Öðruvísi brúðkaup

Undanfarin ár hef ég ljósmyndað nokkuð af erlendum gestum sem koma hingað til Íslands til að gifta sig. Ég veit reyndar ekki alveg hvernig þau rata til mín, þar sem heimasíðan mín er jú 99% á íslensku, en hvað nú um það. Þessi verkefni eru alltaf mjög skemmtileg og gefandi fyrir mig sem ljósmyndara.

Oftast eru þetta fámenn brúðkaup og algengast að Sýslumaður gefi fólkið saman á e-h fallegum stað fyrir utan Höfuðborgina. Núna í lok júní eyddi ég heilum dag með skemmtilegu fólki frá Kanada sem ákvað að koma hingað til að gifta sig – meira og minna út af Sigur Rós! Já, segið svo að tónlist hafi ekki áhrifamátt. Með þeim í för voru tvenn vinahjón þeirra og þau Neila og Lucas höfðu skipulagt daginn fyrirfram. Það stóð nefnilega til að fara í jeppaferð yfir daginn og klára hann svo á Þingvöllum til að láta pússa sig saman.


Buslað með brúðhjón. Canon EOS 1D Mark III, EF 70-200mm f/2.8L

Við byrjuðum á því að aka upp á Hellisheiði til að fá útsýni yfir Hengilinn og alla leið yfir á Þingvallavatn. Á leiðinni tilbaka á þjóðveg 1 var svo ekið ítrekað í árfarveg við mikla kátínu gestanna í bílnum.


Brúðarkoss við Kerið. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 24-70mm f/2.8L

Næst var stoppað við Kerið og svo haldið að fossinum Faxa í Tungufjóti þar sem hópurinn snæddi hádegisverð í frábæru veðri. Að því loknu var haldið að Geysi, þaðan upp að Gullfossi og að lokum ekið til Þingvalla yfir Lyngdalsheiði. Það var svo Sýslumaðurinn knái frá Selfossi sem gaf þau saman í Almannagjá.

Ekki ónýtur brúðkaupsdagur það…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *