Ferðasumarið mikla


Hálendisakstur. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 24-70mm f/2.8L

Já gott fólk. Ég er enn og aftur á leiðinni í ferðalag. Í þetta sinn er það til Danmörku með góðum vinum til að dvelja í tvær vikur í ‘dejlig sommerhus’. Í fyrra hljóp sumarið frá mér (þ.e. privat sumarið varð bísness og hnéskaða-sumrinu að bráð) og ég hét því að bæta fyrir ferðalagaskortinn í ár. Það hefur tekist með eindæmum vel!

Ég er búinn að vera meira og minna á faraldsfæti allan júlí mánuð, hef ferðast um svo til allt landið fyrir utan Vestfirði. Hugsa að kílómetrarnir séu komnir vel á þriðja þúsundið. Ég byrjaði á því að fara í vinnuferð/útilegu í tæpa viku um Vestur- og Norðurland. Nokkrum dögum eftir þá reisu fór ég svo í alveg hreint dásamlega fimm daga gönguferð um Kerlingarfjöll og Þjórsárver með Hálendisferðum – og um leið og henni lauk tók við maraþon-útilega með fjölskyldu og vinum. Og ekki nóg með það. Allan tímann var dásamlegt veður. Ringdi einn dag og þá ókum við frá Þjórsárdalnum alla leið í sólina í Atlavík (620km takk fyrir). Global warming anyone?

Ég er sem sagt búinn að fara hringinn + inn að miðju landsins í þrígang (fyrst ók ég suður Sprengisand frá Bárðardal, í gönguferðinni var ég að ganga í Kerlingarfjöllum og Þjórsárverum sunnan við Hofsjökul og í útilegunni fórum við að Öskju og Herðubreiðarlindum). Ég er því með hálendisglottið fast á fésinu.


Hálendisglott á Hólum, ég með stelpurnar mínar. © Árni Rúnarsson.

Öll þessi ferðalög bjóða auðvitað upp á myndskreittar ferðasögur, en ég hef aðallega verið í því að segjast ætla að skrifa ferðsögur seinna. Það hlýtur að vera ofsa spennandi að fylgjast með þessu bloggi og fá alltaf nýjar tilkynningar um ferðir en engar ferðasögur? Svo skulda ég líka nördapósta því ég hef ekkert slakað á tækjadellunni. Bætti við Canon EOS 1D Mark III í sumar, sem ég var búinn að pæla í að kaupa til viðbótar við stóra bróður (1Ds Mark III) og lét loks verða af því. Og svo fjárfesti ég líka í GPS göngutæki og get því nú sannað upp á cirka 3 metra nákvæmni hvað myndirnar eru teknar. Kemur sér líka vel að geta rakið ferðina í kortaforritinu og fengið upp örnefni við skráningu myndanna.

Ef það verður netsamband í sumarhúsinu er hugsanlegt að e-h líf verði á þessari síðu næstu vikurnar. Annars hvíld fram undir miðjan ágúst. So long…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *