Bjánar fara til Spánar


Frábært útsýni. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 35mm f/1.4L

Mér hefur alltaf fundist þessi setning svolítið fyndin. Algjört bull auðvitað, en samt fyndin.

Móðir mín varð sjötug nú á dögunum og í tilefni þeirra tímamóta buðu þau heiðurshjón okkur systkinunum og fjölskyldum okkar í vikuferð til Costa Del Sol. Það var kærkomin hvíld eftir nokkuð erfiða daga undanfarið.


Öll helstu þægindi á herbergjunum. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Það fór ekki mikið fyrir stressinu í þessari ferð. Bara einblínt á að hagræða sér á sólbekknum (í mínu tilfelli er það aðallega að færa hann í skuggann í takt við sólarganginn) og lesa góða bók. Einu áhyggjurnar fólust í því að finna góða veitingarstaði. Matarmenning á svona túristastað er reyndar svolítið ónýt. Á flestum staðanna er matseðilinn bara ljósmyndaalbúm og maður bendir á það sem manni líst skárst á. Og þeir eru ekki mikið að stressa sig á því að hafa myndirnar góðar, sem hjálpar ekki beint við valið. En maturinn var alveg þokkalegur og í tvö skipti fengum við kvöldverð á heimsmælikvarða. Annars vegar á indverskum stað og hins vegar á vinalegum spænskum stað sem hótelið mælti með. Það er reynsla mín að það er sama hvar í heiminum maður er staddur, indverskir veitingarstaðir klikka aldrei.


Á leið til Ronda. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Hápunktur ferðarinnar var dagsferð til Ronda. Það er ekki nema um 2ja tíma akstur til Ronda frá Torremolinos. Leiðin liggur um fallega fjallvegi sem hlykkjast eftir snarbröttum hlíðum. Það leit reyndar ekki nógu vel út í upphafi ferðar þar sem það ringdi sem hellt væri úr fötu. En þegar við komum til Ronda var byrjað að birta til. Áin Rio Guadalevín rennur í gegnum borgina og skiptir henni í tvennt á mjög dramatískan hátt, því hún hefur grafið gríðarlegt gljúfur sem borgin stendur sitt hvor megin við. Í Ronda er að finna elsta Nautaatshring á Spáni og einnig best varðveitta Arabíska baðhúsið auk þess sem brýrnar þrjár yfir gljúfrið eru merkilegar byggingar, sú hæsta í um 120m hæð yfir gljúfurbotninum. Hún er kölluð nýja brúin, en var reist 1784!


Stuð í lauginni. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 50mm f/1.2L

Heimferðin tók svolítið á taugarnar. Á þessum krepputímum er búið að hagræða svo mikið að maður er bara feginn að flugið sem maður átti pantað fari í sömu viku og til stóð. Beina flugið okkar breyttist í sameinað millilendingarnæturflug dauðans. Í stað þess að fara á kristilegum tímum og fljúga beint er nú boðið upp á næturferðalag sem tekur næstum tvisvar sinnum lengri tíma. Ofan á það var ekki passað upp á að þær fáu barnafjölskyldur sem voru í hópnum fengju að tékka inn fyrst, til að tryggja að foreldrarnir fengju sæti með börnum sínum. Fararstjórarnir höfðu eldri borgararana í gjörgæslu við tékk-inn og eyddu miklu púðri í að kyssa og faðma fastakúnnana sína bless. Þeim var svo slétt sama þegar við fórum að finna að því að þurfa að sitja fjórum sætaröðum frá börnunum okkar! Það var rosa gaman að reyna að leysa það vandamál með flugfreyjunum, sérstaklega þegar íslensku bifukollurnar neituðu allar að skipta um sæti. En þetta reddast svona nokkurn vegin og heim komumst við að lokum.

Það var hressandi að koma út í slagviðrið og 5 stiga hita, mjög heppilegt þar sem maður var algjörlega ósofinn eftir flugið og gott að vakna almennilega fyrir bílferðina heim. Ísland er nú alltaf bezt í heimi.

3 thoughts

  1. Já góð myndin sem þú hefur náð þarna af mömmu þinni og Margréti…. Hafið það gott í borginni..

  2. Frábær síða hjá þér! Fallegar myndir og hnyttinn texti.

    Kveðja
    Agnes Ósk (vinkona Berglindar)

    ps. er sko í átaki að kvitta fyrir mig á bloggsíðum sem ég heimsæki, finnst það bara vera kurteisi ;o)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *