Ragna og Bragi


Kjóllinn lagaður fyrir stóru stundina. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 35mm f/1.4L

Ég var að klára myndvinnslu á brúðkaupi Rögnu og Braga sem ég ljósmyndaði hinn örlagaríka dag 13. september. Það var sama dag og ég lenti í bílslysinu. Ég man lítið sem ekkert frá deginum og því var svolítið sérstök upplifun að vinna úr þessum myndum.

Þau voru gefin saman í Bessastaðakirkju og þrátt fyrir að vera orðinn vel sjóaður í þessum bransa var þetta í fyrsta skipti sem ég myndaði athöfn þar. Bessastaðakirkja er langt frá því að vera björt, hún er eiginlega með þeim erfiðari. Ég hef það fyrir reglu að taka út aðstæður í þeim kirkjum sem ég hef ekki myndað áður og mætti því á æfinguna til að mæla ljósið og gera prufur með flass. Ég nota reyndar flass sama og ekkert. Bara í neyð til að frysta hreyfingu og ef það vantar uppfyllingarljós í skuggasvæðin. Þessa athöfn myndaði ég alla á ISO 3200 og á ljósopum frá f/1.2 til f/2.0. Myndin hér fyrir neðan er t.d. skotin á ISO 3200 og f/1.4 – 1/125s. Dýptarskerpan á svona stóru opi er sama og engin og því mikilvægt að negla fókusinn. Sumum finnst óþægilegt að vinna svona en ég er eiginlega alveg orðinn háður því!


Leikið með hringapúða. Canon EOS 1D Mark III, EF 85mm II  f/1.2L

Það viðraði ekki beint til útimyndatöku þennan dag. Við fórum því hingað á Hverfisgötuna í sjálfa myndatökuna. Hún gekk vel, krakkarnir voru vel með á nótunum eins og sjá má.One thought

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *