Allir fá þá eitthvað fallegt


Hildur. Canon EOS 1Ds Mark III, EF 70-200mm f/2.8L IS

Nú er tími barna- og fjölskyldumyndanna. Nóg að gera flestum ljósmyndurum að mynda gríslingana. Ömmur og afar fá ósjaldan myndir af barnabörnunum um jól. Það er í sjálfu sér ágætis hefð. En að öðru leyti fer lítið fyrir hefðum hjá okkar þjóð þegar kemur að því að fara í myndatökur til atvinnuljósmyndara. Í dag eiga jú líka flestir stafrænar myndavélar “sem taka svo góðar myndir”.

Mér hefur alltaf fundist þessi frasi um að eiga myndavél sem tekur svo góðar myndir mjög fyndinn. Nota hann meira að segja oft sjálfur í gríni þegar e-h spyr hvort ég geti tekið að mér verkefni.  Segi þá gjarnan: “Jú, það held ég nú, ég var einmitt að fá nýja vél sem tekur svo góðar myndir.” En þessi frasi er nokkuð lýsandi fyrir marga og hugmyndir þeirra um það hvað ljósmyndun gengur út á. Auðvitað er kostur að eiga góð tæki en þau eru ekki forsendan fyrir því að taka góða ljósmynd. Útkoman er sjaldan góð ef ljósmyndarinn nær ekki tengingu við viðfangsefnið. Og þegar börn eru annars vegar getur það oft reynst erfitt, sérstaklega þegar þau eru komin í ókunnugt umhverfi og það fyrir framan e-h kall með stóra myndavél og blikkandi ljós um allt.

Því er ég alltaf svo kátur þegar ég næ þó ekki nema einni mynd sem mér finnst góð úr barnamyndatöku. Ein virkilega góð mynd er svo miklu, miklu meira virði en svona 600 sæmilegar.

2 thoughts

  1. Sammála með þetta að vélarnar taki svo góðar myndir… hef heyrt það nokkuð oft að ég eigi svo góða vél sem taki svo góðar myndir. Þetta er reyndar mikill galli á því að eiga góða vél þ.e. fólk fer að spyrja mann hvað vélin kosti þegar maður beinir linsunni að því í staðin fyrir að vera vera bara eðlilegt.

    Annars þegar þú talar um að það sé þessi tími ársins þá kom systir mín heim með 10. bekkjarmyndina sína í vikunni. Mjög fyndið að skoða hana því í fremstu röð “sitja” strákar, eða hálf liggja, með útglennt klof og götótta sokka.

    Þykir mér nú þá vera augljós ástæðan fyrir því að reyndari ljósmyndarar létu stelpurnar sitja á fremsta bekk á öllum mínum bekkjarmyndum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *